Formaður SA: Þurfum skipstjórn sem segir okkur hvert við stefnum

Þór Sigfússon
Þór Sigfússon Sverrir Vilhelmsson

Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, sagði á fundi samtakanna í morgun að þjóðin þyrfti skipstjórn sem segði okkur hvert við stefndum. Sagði hann alla umræðu um framtíðina vera snúna um þessar mundir. Rykið væri ekki sest og við stæðum öll á öndinni.

„Þessu var lýst fyrir mér um daginn eins og við værum barnmörg fjölskylda þar sem elsti bróðirinn hefði veðsett húsið okkar og nú væri allt í kaldakoli. Við krakkarnir erum rekin inn í herbergi að sofa en mamma og pabbi eru frammi í stofu að reyna að finna leiðir út úr vandanum. Svo festum við ekki svefn, gægjumst fram en heyrum lítið sem ekkert," sagði Þór.

Hann sagði að í svo alvarlegri kreppu væru sumir enn undrandi, aðrir óttuðust stöðuna og enn aðrir væru reiðir. Þjóðin sem heild færi ekki strax í uppbyggingarfasann en við gætum og ættum að hefja undirbúning að því. Forsenda þess væri þó sú að menn töluðu meira saman og töluðu sama tungumál.

„Halldór Laxness sagði einhverju sinni að þegar Íslendingar heyra rök þá setji þá hljóða! Nú þurfum við að heyra öll rök og skýringar á mannamáli. Við þurfum svör. Og við þurfum skipstjórn sem segir okkur hvert við stefnum. Það heyrist alltof oft að ríkisstjórnin sé svo upptekin við að leysa aðsteðjandi vanda að það er enginn tími til þess að hugsa um framtíðina. Það er verið að gera marga hluti rétt af hálfu stjórnkerfisins og forystan í
björguninni hefur gert margt gott en við vitum ekki hvert við stefnum. Stjórnvöld verða að geta gert hvorutveggja á sama tíma, moka og moka og  segja okkur hvert þau stefna," sagði Þór.

Formaður SA sagði ennfremur að kreppa væri móðir tækifæra og nýsköpunar. Nýta ætti þessa tíma til að hugsa hlutina upp á nýtt. Íslenskt atvinnulíf hefði sýnt og sannað á síðustu vikum hvers megnugt það væri við að hugsa út fyrir rammann og sýna sveigjanleika.

Þór Sigfússon sagði Íslendinga hokna af reynslu í að kljást við áföll, náttúruhamfarir ýmis konar, jarðskjálfta, eldgos og aflabrest. Nú væri komið að fjármálakrísunni og við myndum afgreiða hana.

„Muniði eftir fjölskyldunni sem ég sagði frá þar sem allt var í kaldakoli og börnin send inn í rúm til að foreldrarnir geti rætt um vandamálin. Mér
finnst mamman og pabbinn enn vera inni í stofu og við með hjartað í buxunum inn í rúmi. Nú þurfum við alla framúr og stóran fjölskyldufund
þar sem línan er gefin, masterplanið kynnt og við öll sett í vinnu," sagði Þór að endingu í erindi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert