,,Stjórnvöld hafa vanrækt skyldu sína"

Frá ráðstefnu Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmur Egilsson og Hermann Guðmundsson voru …
Frá ráðstefnu Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmur Egilsson og Hermann Guðmundsson voru meðal frummælenda mbl.is/Valdís Thor

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, sagði á opnum félagsfundi Samtaka atvinnulífsins á Grand hótel í morgun að margt hefði verið hægt að gera til að afstýra hruni íslensku bankanna. Fallið hefði í raun hafist í mars sl. þegar gengi krónunnar féll og sést hefði til skortsala á barnum á 101 Reykjavík hóteli. Um það leyti sem forsætisráðherra hefði sagt að botninum væri náð hefðu stjórnvöld átt að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, IMF, til að halda íslensku bönkunum á lífi. ,,Stjórnvöld hafa vanrækt skyldu sína," sagði Hermann og kom með nokkrir tillögur sem ráðast þyrfti í strax.

Hermann sagði stjórnendur velta fyrir sér ábyrgð sinni þegar verið væri að róa lífróður og fyrirtækjum væri haldið gangandi með mikið neikvætt eigið fé. Slík fyrirtæki gætu lent í vanskilum, m.a. með opinber gjöld. Stjórnendur þessara fyrirtækja vildu ekki vera kallaðir sakamenn og til að koma í veg fyrir að þeim verði stungið í fangelsi þyrftu stjórnvöld að breyta löggjöfinni. Einnig lagði Hermann til að stofnaður yrði sjóður af hálfu ríkisins til að lána fyrirtækjum kúlulán til 5-10 ára, endurskipuleggja þyrfti skuldir fyrirtækja, fella niður fasteignagjöld af tómu húsnæði og ríkið beitti sér fyrir því að kaupa fasteignir af verktökum. Þá þyrfti að sjá til þess að samkeppnisyfirvöld gætu úrskurðað í sínum málum hratt og örugglega.

Ennfremur sagði Hermann að gera þyrfti fyrirtækjum kleift að lækka starfshlutfalls síns fólks frekar en að segja því upp. Því miður hefði þurft að grípa til mikilla uppsagna, þannig hafði N1 fækkað í sínu starfsliði um 10% síðan í sumar og sagt upp um 70 manns. Hann sagði vanskil fyrirtækja vera að aukast dag frá degi. Tók hann dæmi af N1, sem hefði um 16 þúsund reikningshafa í viðskiptum. Fyrir ári síðan hefðu um 100-130 reikningar verið í innheimtu vegna vanskila en núna væru þessir reikningar komnir vel yfir 1 þúsund.

„Lausafjárskortur viðskiptavina okkar er mikill, stórir og smáir verktakar eru að verða gjaldþrota og atburðarás er hafin sem leiða mun til stórfelldra uppsagna ef ekkert verður að gert," sagði Hermann.

Aðrir frummælendur á fundinum voru Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, og Þór Sigfússon, formaður samtakanna. Vilhjálmur ítrekaði m.a. sínar fyrri hugmyndir að semja þyrfti um frið við erlenda lánadrottna íslenskra fyrirtækja og stofnana og bjóða þeim að gerast hluthafar í bönkunum. Um leið væri afar brýnt að koma aðgerðaáætlun IMF í gegn, fyrr kæmust gjaldeyrisviðskipti ekki í gang. Við núverandi aðstæður væri áframhaldandi aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum nauðsynlegur. Sagði Vilhjálmur að ef þetta tækist ekki, að Íslendingar þyrftu að greiða upp allar þær kröfur sem settar væru upp, þá stefndi í fjöldagjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga.

„Sama þótt það séu eintómir hundar"

Í máli Vilhjálms og Þórs kom fram ákveðin gagnrýni á stjórnvöld fyrir að hafa ekki sýnt nægan samstarfsvilja við atvinnulífið. Nauðsynlegt væri að vita hvert við stefndum og mæltist Vilhjálmur til þess að teknar yrðu upp viðræður um upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu. Þór sagði viðskiptalífið ekki þola marga daga til viðbótar án þess að engar lausnir kæmu fram, þörf væri á breiðri samstöðu og samstarfi með stjórnvöldum. Hægt væri að létta óvissunni með ýmsum hætti. ,,Ríkisstjórnin hefur ekki leitað eftir miklu samstarfi við okkur, sá stíll sem valinn hefur verið að halda að sér spilunum er óheppilegur. Það er betra að sýna hvaða spil menn hafa á hendi, sama þótt það séu eintómir hundar," sagði Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert