Vegir komast ekki í not fyrr en í vor

Vegurinn um Arnkötludal.
Vegurinn um Arnkötludal.

Ekki er útlit fyrir að umferð verði hleypt á veginn um Arnkötludal í vetur eins og áformað var. Þá er vinna að stöðvast við gerð brúar yfir Mjóafjörð við Ísafjarðardjúp og verður brúin ekki opnuð fyrir umferð fyrr en í vor.

Vegurinn um Arnkötludal og Gautsdal, á milli Króksfjarðar og Stranda, er um 25 kílómetrar að lengd. Gert var ráð fyrir því í útboði að lagningu vegar með neðra burðarlagi lyki fyrir veturinn. Guðmundur Kristjánsson, deildarstjóri nýframkvæmda hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir að þessum áfanga sé ekki náð og varla útlit fyrir að það takist áður en vetur skellur á fyrir alvöru. Þá séu vegagerðarmenn efins um að rétt sé að hleypa umferð á svona grófan og leiðinlegan veg, á jafnlöngum kafla. Vegurinn verður kláraður næsta sumar með bundnu slitlagi.

Starfsmenn verktaka sem eru að leggja nýjan veg í Ísafjarðardjúpi og brú yfir Mjóafjörð hætta vinnu einhvern næstu daga. Búið er að setja brúna upp og verið að raða upp forsteyptum einingum. Ofan á þær verður lagt 15 sm steypulag. Guðmundur segir að ekki sé talið óhætt að vinna það verk þegar komið er fram á harðavetur og það frestist til vors og þá jafnframt gengið frá brúnni og vegunum að henni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert