Ekki stefna aðgerðunum í hættu

Geir Haarde segir fjármálaeftirlitið hafa verið of veikt miðað við …
Geir Haarde segir fjármálaeftirlitið hafa verið of veikt miðað við stærð bankanna. mbl.is/Ómar óskarsson

Geir H. Haarde forsætisráðherra lýsti undrun sinni á orðum Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra og Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra í Kastljósi um að þau vildu sjá kosningar í vor. Stjórnarflokkarnir hefðu síðast í dag verið að ganga frá viðamiklum ráðstöfunum til að bæta hag heimila og fyrirtækja í landinu í gegnum lánið frá IMF. „Nú ríður á að það sé öflug stjórn sem heldur um stjórnartaumana á næstu mánuðum, en þetta prógram er til tveggja ára. Það má ekki gleyma því,“ sagði forsætisráðherra. „Þannig að það á ekki að stefna þessu í hættu að mínum dómi.“  Ráðast þurfi í heilmiklar aðgerðir og öll óvissa í pólitík sem bætist ofan á þessar efnahagsaðstæður, sem séu mesta efnahagsáfall sem að við höfum gengið í gegnum á síðari tímum, geri bara illt verra.

  Geir sagði Fjármálaeftirlitið enn fremur hafa verið of veikt miðað við stærð bankanna og þá ræddi hann um áhyggjur breskra stjórnvalda af að Kaupþing hefði verið að flytja fjármuni til Íslands frá Bretlandi stuttu fyrir fall bankanna. Kaupþing hafi hins vegar neitað að svo hafi verið og Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, fullvissað hann síðast í gær um að engar slíkar færslur hafi átt sér stað. Þvert á móti segðust Kaupþingsmenn hafa verið að flytja fé til Bretlands á þessum tíma.
Spurður um það hvort hann hafi hugleitt að segja af sér í kjölfar efnahagsástandsins, sagði Geir svo ekki vera. Vandi bankanna hafi vissulega orðið til á sinni vakt og þar af leiðandi líti hann svo á að það sé sitt mál að koma þjóðinni í gegnum erfiðleikana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert