1-2 milljarðar á ríkið vegna bílaútflutnings

Mikið er af bílum á bílasölum landsins.
Mikið er af bílum á bílasölum landsins. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um tímabundna heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt og vörugjöld af notuðum bílum sem eru fluttir úr landi. Áætlað er að ríkið þurfi að greiða 1,5-2 milljarða vegna þessara ráðstafana en áætlað er að 5000 bílar verði fluttir út á næstunni.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að verulega hafi dregið úr sölu nýrra og notaðra bifreiða hérlendis á síðustu mánuðum og nú sé svo komið að verulegur fjöldi ónotaðra ökutækja hafi safnast upp. Frumvarpinu sé því ætlað að greiða fyrir sölu notaðra bifreiða úr landi, sem muni auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins til skemmri tíma og ýta undir það að hjól atvinnulífsins fari að snúast á ný. Auk þess megi reikna með að frumvarpið flýti fyrir fjölgun vistvænna ökutækja í umferðinni. 

Endurgreiðslan tekur mið af þeirri fjárhæð sem greidd var í vörugjöld og virðisaukaskatt við innflutning ökutækis að teknu tilliti til aldurs þess. Þannig lækkar viðmiðunarfjárhæð endurgreiðslu um 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð, fyrstu 12 mánuðina eftir skráningu ökutækisins, og 1,5% fyrir hvern mánuð eftir það.

Gert er ráð fyrir að breytingin kunni að kosta ríkissjóð 1,5–2 milljarða króna í beinum endurgreiðslum en á móti vegi óbein áhrif aukinnar veltu og veltuskatta af þeim gjaldeyri sem fáist fyrir bílaútflutninginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina