Davíð beri að víkja

Helgi vill nýja stjórn í Seðlabankanum.
Helgi vill nýja stjórn í Seðlabankanum. mbl.is/Ómar

Helgi Pétursson, formaður stjórnar Samfylkingarinnar í Garðabæ, segir félag flokksmanna í bænum einhuga um að skipta beri um stjórn í Seðlabankanum. Davíð Oddsson, formaður bankaráðs Seðlabankans, njóti ekki lengur trausts.

„Ég held að það sé einboðið að Seðlabankinn og stjórn hans nýtur ekki trausts, hvorki hér innanlands eða erlendis þar sem gert er grín að honum. Að þessir menn eigi að leiða þær tilraunir endurreisnar íslensks fjármálakerfis sem við erum að fara í veldur mér beinlínis hrolli.“

Helgi segir að tæplega 100 manns hafi mætt á fund félagsins í vikunni sem staðið hafi yfir til tæplega miðnættis. Þar hafi farið fram mjög heitar umræður um landsmál og bæjarmál.

Fundurinn hafi verið tímamótafundur og þar verið einhugur um það samdóma álit að stjórn seðlabankans njóti hvorki trausts né virðingar.

„Ég lít svo á að Davíð Oddsson, formaður banakastjórnar Seðlabankans, sé kominn langt út fyrir sitt hlutverk. Í stað þess að viðhalda stöðugleika og festu í þeim hremmingum sem yfir hana dynur er hann stokkinn í pólitískan hráskinnaleik, sem er á engan hátt samboðið þeirri stöðu sem hann er í,“ segir Helgi Pétursson.

Helgi Pétursson.
Helgi Pétursson. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert