Gagnrýnir Björgvin og Þórunni

Alþingishúsið
Alþingishúsið Árvakur/Golli

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra fyrir þau ummæli þeirra í gær að boða ætti til kosninga á næsta ári. Hann telur ummælin þreytumerki á ráðherrunum sem beri að íhuga afsögn.

„Mér finnst ábyrgðarleysi af ráðherrum í ríkisstjórninni að tala með þeim hætti sem þau gerðu í gær. Mér finnst að bankamálaráðherra Björgvin G. Sigurðsson og umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir hafi öðrum hnöppum að hneppa við endurreisn bankakerfisins en að vera í kosningabaráttu,“ segir Jón.

„Ég met þetta sem þreytumerki. Að mínu mati er nú að hefjast seinni hálfleikur í því áfalli sem dunið hefur yfir þjóðina. Við fengum staðfestingu um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í gær og erum nú að hefja viðreisnarbaráttuna, sem ég vil nefna svo. Í þeirri baráttu þurfum við óþreytt fólk. Ég lít svo á að við eigum nóg af hæfu folki á varamannabekknum. Það ber að skipta þreyttu fólk út.“

Inntur eftir því hvort hann telji breytinga þörf í liði sjálfstæðismanna við þessar aðstæður segir Jón það vera „fulla ástæðu fyrir forystumenn ríkisstjórnarflokkanna að stokka upp í sínu liði“.

Það eigi jafnt við ráðherra í ríkísstjórn og embættismenn í stofnunum á vegum ríkisins.

Spurður hvort að hann sé þar með að vísa til Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra segir Jón nú kominn upp „ákveðinn vendipunkt í þessu máli“.

„Við erum að hefja viðreisnina. Ég horfi ekki sérstaklega til seðlabankans í þeim efnum. Í þeirri stöðu sem nú er uppi er þörf á að endurnýja svolítið inn á vellinum. Ég hræðist ekki kosningar en við þessar aðstæður sem eru uppi í samfélaginu tel ég það mikið ábyrgðarleysi að eyða tíma í umræður um kosningar, því allir vita að þegar kosningar eru ákveðnar riðlast hið hefðbundna starf þingsins. Ég tel að slík umræða sé mjög ótímabær.“

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og …
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra fyrir þau ummæli að efna beri til þingkosninga.
mbl.is

Bloggað um fréttina