Óska eftir launalækkun

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra á …
Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra á blaðamannafundinum í dag mbl.is/Ómar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur í dag skrifað formanni kjararáðs bréf þar sem þeim tilmælum er til ráðsins að það ákveði tímabundið fyrir árið 2009 að lækka laun þeirra, sem heyra undir ráðið en það eru forseti Íslands, alþingismenn, ráðherrar og dómarar og aðrir ríkisstarfsmenn, sem svo er háttað um að kjör þeirra geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu.

Þetta kom fram á blaðamannafundi, sem þau Geir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, héldu í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Fram kom einnig, að hafnar verða viðræður við hálaunahópa, sem vinna hjá ríkinu, um að þeir taki á sig svipaða kjaraskerðingu. Geir vildi ekki nefna ákveðna tölu en talaði um 5-15%.

Ingibjörg Sólrún sagði, að nú væru sérstakar aðstæður í samfélaginu og ýmsir hefðu tekið á sig kjaralækkun vegna þess. Þess vegna væri þessum tilmælum beint til kjararáðs og það gæti hjálpað stjórnvöldum að gera samskonar kröfur til hálaunastarfsmanna hjá ríkinu. Þá verður svipuðum tilmælum einnig beint til stjórna ríkisfyrirtækja, sem taka ákvörðun um launakjör forstjóra fyrirtækjanna.

Þá kynntu þau Geir og Ingibjörg, að samkomulag hefði orðið milli stjórnarflokkanna um tillögum um breytingar á lögum um eftirlaun þingmanna, ráðherra og hæstaréttardómara en þeim lögum var breytt 2003. Hafa þingflokkar stjórnarflokkanna samþykkt tillögurnar og er ætlunin að leggja fram drög að frumvarpi um málið á Alþingi í næstu viku.

Að sögn Ingibjargar Sólrúnar er með tillögunum verið að færa kjör þessara hópa nær því sem almennt gerist og ýmsir þeir ættir úr eftirlaunalögunum frá 2003, sem verið hafa fólki mestur þyrnir í augum, felldir á brott.

Meðal annars er gert ráð fyrir að almennt aldurslágmark til töku eftirlauna verði hækkað úr 55 árum í 60 ár fyrir ráðherra, þingmenn og hæstaréttardómara.

Þá verður réttindaávinnsla þingmanna 2,375% fyrir hvert ár í embætti í stað 3% og hjá ráðherrum og hæstaréttardómurum lækkar hlutfallið úr 6% í 4%. Ingibjörg Sólrún sagði, að þetta væri umfram það sem gildi hjá opinberum starfsmönnum en til þess yrði að líta, að þingmenn og ráðherrar borga 5% af launum sínum í lífeyrissjóð í stað 4% eins og almennt gerist þar.

Þá verður girt fyrir, að þessi hópur lífeyrisþega geti bæði haft eftirlaun og laun frá ríkinu á sama tíma. Ingibjörg Sólrún sagði að gert væri ráð fyrir því, að þetta nái einnig til þeirra, sem nú þegar þiggja laun og eftirlaun frá miðju ári 2009. Þá sé gert ráð fyrir því, að um fyrrverandi forsætisráðherra gildi sömu reglur og um aðra ráðherra.

Þau réttindi, sem hafa áunnist samkvæmt gildandi lögum, skerðast ekki en frá og með næsta ári hefst réttindaávinnslan í samræmi við nýju lögin. Þá njóta núverandi hæstaréttardómarar  óskertra réttinda samkvæmt núgildandi lögum út skipunartíma sinn. 

Fram kom einnig hjá Geir á blaðamannafundinum, að hann hefði rætt við formenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi um skipan rannsóknarnefndar, sem á að rannsaka aðdraganda hruns bankanna. Sagðist hann gera sér vonir um að frumvarp um slíka nefnd kæmi fram í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina