Telur vantrauststillögu efla samstarf ríkisstjórnarinnar

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, telur að vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar á ríkisstjórnina eigi eftir að efla samstarf stjórnarflokkana. Þetta kemur fram á vef ráðherrans.

„Stjórnarandstaðan hefur flutt tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Hún krefst sérstakrar meðferðar á alþingi, þar á meðal útvarpsumræðna. Oftast snúast svona tillögur í höndum flutningsmanna og þjappa þeim saman, sem á er ráðist. Að líkindum eflir tillagan þannig samstarf stjórnarflokkanna, þótt flutningsmenn stefni að öðru," segir Björn.

Á vefnum kemur fram að hann flutti framsöguræðu fyrir frumvarpi um sérstakan saksóknara til að rannsaka sakamál vegna bankahrunsins í dag.

Segir hann að fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafi tekið frumvarpinu almennt vel nema Jón Magnússon, þingmaður frjálslyndra, sem gerði athugasemd við formið.

„Orðaskipti urðu milli okkar Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um orð í ræðu Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, sl. þriðjudag. Taldi Siv, að þau mætti skilja á þann veg, að lögreglu hefði borist ábending vegna Kaupþings en ekki hefði verið brugðist við henni. Ég taldi hins vegar, að orðalag Davíðs gæfi til kynna, að ástæða hefði verið að snúa sér til lögreglu en það hefði ekki verið gert," segir á vef Björns Bjarnasonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert