Batnaði staðan þegar bankarnir hrundu?

mbl.is

Þeir sem eru andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa margoft sagt að Íslendingar geti ekki komið á hnjánum til að sækja um aðild að ESB og eiga við að ekki eigi að sækja um aðild í efnahagslægð því þá sé samningsstaða þjóðarinnar verri en ella. Þessir sömu andstæðingar hafa reyndar ekki heldur talið ástæðu fyrir Íslendinga til að sækja um aðild þegar staða efnahagsmála hefur verið góð þannig að sterk eða veik staða þjóðarbúsins hefur augljóslega ekki úrslitaáhrif. En hvaða máli skiptir afleit staða efnahagsmála fyrir hugsanlegar aðildarviðræður við ESB? Skiptir hún einhverju máli yfirleitt?

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði sem um árabil hefur rannsakað stöðu smáríkja innan ESB, telur að hrun bankanna og slæmt efnahagsástand skipti máli en leiði þó alls ekki til veikari samningsstöðu. Þvert á móti, samningsstaðan hafi jafnvel styrkst. Hann setur þó fyrirvara um áhrif Icesave-deilunnar svokölluðu.

„Nú þegar samningar hafa náðst við Hollendinga og Breta um Icesave-reikningana, og að því gefnu að þær deilur sem hafa verið á milli þjóðanna um þá reikninga hafi ekki valdið varanlegu tjóni á samskiptum Íslands við ríki Evrópusambandsins, þá tel ég að við séum jafnvel í betri samningsstöðu en fyrir bankahrunið,“ sagði Baldur í samtali við Morgunblaðið.

Fall bankakerfisins geri það að verkum að sjávarútvegurinn verði á ný langmikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar og verði það í nokkurn tíma enn. Það gefi Íslendingum kost á að tefla með enn skýrari hætti fram kröfu um varanlegar undanþágur frá fiskveiðistefnu ESB, telji menn þörf á því, eða krefjast þess að á Íslandsmiðum gildi sérstakt fiskveiðistjórnunarkerfi.

Í ljósi efnahagslegra aðstæðna mætti einnig ætla að Ísland ætti auðveldara með að ná hagstæðum samningi í landbúnaðarmálum, t.d. með því að landbúnaðarhéruð nytu sérstakra byggðastyrkja. Fyrir þessu væru mýmörg fordæmi. „Það má eiginlega segja að nú sé lag. Ef við hefðum verið að semja við ESB fyrir einu ári hefði krafa sambandsins um greiðslu í sjóði þess orðið miklu meiri en hún yrði í dag.“

Hvað varðar upptöku evru sagði Baldur að Ísland yrði að uppfylla öll sömu skilyrði og önnur ríki. Það væru draumórar að halda annað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert