Önnum kafin við björgunarstörf

Geir H. Haarde, forsætisráðherra á Alþingi í dag.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, gagnrýndi á Alþingi í dag, að stjórnarandstaðan sæi ástæðu til að leggja fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina þegar stjórnvöld væru önnum kafin við björgunarstörf vegna bankakreppunnar og þá sæi stjórnarandstaðan ástæðu til að flytja tillögu um vantraust.

Þá væri tillagan meingölluð að formi til og gerði í raun ráð fyrir þingkosningum á gamlársdag.

Geir sagði, að sér virtist að vantrauststillagan virtist lögð fram í þeim eina tilgangi að skapa óróa. Ekkert vit væri í því, að efna til kosninga og að ríkisstjórnin fari frá í því ástandi sem nú ríkir. Sennilega sæi formaður VG í hyllingum að geta innleyst þann pólitíska hagnað, sem nú kemur fram í skoðanakönnunum. Hins vegar endurspegli vantrauststillagan fullkomið pólitískt ábyrgðarleysi og þjóni þeim tilgangi einum, að beina að stjórnarandstöðunni tímabundnu kastljósi enda viti hún, að tillagan verði felld.

Geir sagði, að mörgum kunni að virðast sem stjórnmál séu hálfgerður málfundur. En nú séu ekki þannig tímar. Þeir þingmenn, sem kosnir voru á síðasta ári hafi gefið þjóðinni þá skuldbindingu, að sinna þeim störfum, sem þurfi að vinna og það muni ríkisstjórnin gera.

„Það er ekki eðli okkar Íslendinga að hopa þegar mest á reynir og það sama á við um þessa ríkisstjórn. Hún mun halda ótrauð áfram," sagði Geir.

Útsending frá umræðu um vantraust á ríkisstjórn 

mbl.is