Efast um að Davíð eigi við sig

Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs Group
Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs Group mbl.is/Kristinn

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, segir í yfirlýsingu sem birt er á vef norska ríkissjónvarpsins að hann efist um að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hafi átt við sig er hann talar um að einn einstaklingur hafi fengið að láni eitt þúsund milljarða hjá viðskiptabönkunum þremur.

Segir Jón Ásgeir að svo líti út að upplýsingar þáttagerðarmanna byggi á ummælum Davíðs frá því í liðinni viku á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands. Yfirlýsing Jóns Ásgeirs kemur til vegna fyrirhugaðar umfjöllunar norska sjónvarpsins um hann í kvöld. 

„Í tilefni af þættinum Hafsjór af skuldum sem fjallar meðal annars fjarhag minn vil ég taka fram: Blaðamaður kom til Íslands frá Noregi og fór einnig til Miami í hinu sólríka ríki Flórída til að leita upplýsinga. Svo virðist sem rekja megi áhuga viðkomandi til Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, þar sem hann fullyrti að íslensku bankarnir hefðu lánað einum manni þúsund milljarða íslenskra króna. Hann nefndi þó ekki við hvern hann ætti.

Íslendingar þekkja þó almennt vel hugsanagang seðlabankastjórans og gengu því útfrá því að hann ætti við mig. Svo virðist sem NRK hafi gleypt þessi ummæli hans hrá. Ég efast þó um að ég sé sá sem hann átti við. Þau fyrirtæki sem ég og fjölskylda mín eigum í, ásamt hundruðum annarra hluthafa, það er að segja Baugur, Stoðir og Landic Property, eru þrjú af stærstu fyrirtækjunum á Íslandi og þau skulda, samkvæmt yfirliti endurskoðanda fyrir árið 2008, 900 milljarða íslenskra króna alls.

Þar af er skuld þeirra á Íslandi alls 430 milljarðar króna, en það er hvort tveggja óheiðarlegt og rangt að einblína á skuldastöðuna.

Á bak við skuldirnar eru tryggingar í öruggum hlutabréfum sem NRK kaus að þegja um þótt á þau hafi verið bent við undirbúning þáttarins.

Samkvæmt endurskoðun um mitt þetta ár voru hlutabréfin í þremur stærstu fyrirtækjunum metin á 1.200 milljarða íslenskra króna og eigið fé hluthafanna 300 milljarðar króna. Þetta hlutafé getur átt verulegan þátt í því að treysta fjárhagslegan grundvöll íslensku bankanna og þar með íslensks efnahagslífs í náinni framtíð.

En hvers vegna leggur fulltrúi NRK á sig að fara alla leið í sólina til Miami? Jú, svo virðist sem ein helsta heimild NRK sé maður að nafni Jón Gerald Sullenberger, áður kunningi minn og viðskiptafélagi sem hefur sagt NRK söguna um íslensku fyrirtækin og gefið sig út fyrir að vera sjálfstæður sérfræðingur í því efni.

Sullenberger hefur hins vegar sýnt mér og fjölskyldu minni fjandskap, bæði persónulega og í viðskiptum. Svo virðist sem Sullenberger deili þráhyggju sinni varðandi mig með Davíð Oddssyni, því að það er engu líkara en að þeir haldi því fram að ég hafi upp á eigin spýtur kollvarpað efnahagslífinu á Íslandi.

Það veldur vonbrigðum að NRK skuli hafa ákveðið að treysta þessum mönnum í örvæntingarfullum tilraunum þeirra til að finna einhvern sem þeir geti kennt um eigin mistök. Ég reyndi að vinna með NRK við vinnslu þáttarins. Það var þó alveg ljóst að blaðamaður NRK var búinn að skrifa söguna fyrirfram og átti ekki annað erindi en að fá hjá mér upplýsingar til að staðfesta hana. Slíkar vinnuaðferðir eru ekki í samræmi við það orð sem farið hefur af NRK og ég hef vissulega margt mikilvægara að gera en að leiðrétta alla þá vitleysu sem fram kemur í þættinum,“ að því er segir í yfirlýsingu Jóns Ásgeirs.

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert