FME hefur umfjöllun Morgunblaðsins til skoðunar

Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.
Morgunblaðshúsið í Hádegismóum. mbl.is/ÞÖK

Fjármálaeftirlitinu hefur borist tilkynning frá Nýja Glitni um meint brot Morgunblaðsins á þagnarskylduákvæðum laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt upplýsingum frá FME er verið að skoða hvort um hugsanleg brot sé að ræða.

Tómas Sigurðsson, yfirlögfræðingur bankans, segir að það sé FME að ákveða hvort það taki málið áfram eða beiti þá aðila sem eigi hlut að máli stjórnvaldssektum. „Eða senda það til lögregluyfirvalda,“ segir Tómas.

Málið varðar grein sem Agnes Bragadóttir blaðamaður skrifaði í sunnudagsblað Morgunblaðsins þar sem því er haldið fram að helstu stjórnendur Glitnis hafi ásamt fulltrúum stærsta hluthafans í Glitni, FL Group, brotið allar verklagsreglur við lánveitingar í nokkrum tilvikum í fyrrahaust.

Agnes segir að hún hafi undir höndum gögn úr lánabókum Glitnis sem sýni fram á óeðlilegar lánafyrirgreiðslur frá bankanum til stærstu hluthafa FL Group upp á marga tugi milljarða.

„Okkur ber skylda til að standa vörð um trúnaðargögn viðskiptamanna okkar. Við getum ekki látið það átölulaust hvorki að þau rati í fjölmiðla eða blaðamanna né - ef þau rata til blaðamanna - að blöð skuli birta þau,“ segir Tómas í samtali við mbl.is.

Hann bendir á að lögin um þagnarskyldu hafi verið breytt árið 2002. „Í lögunum stendur í dag að sá sem veitir viðtöku trúnaðarupplýsingum, sem njóta verndar þagnaskylduákvæðisins, að þeir séu bundnir sambærilegri þagnarskyldu,“ segir Tómas.

Tómas segist hafa orðið fyrir vonbrigðum að sjá grein Agnesar í sunnudagsblaðinu. „Það sem mér fannst eiginlega leiðinlegast var að sjá gögn um aðila sem á engan hátt tengjast þessu, útgerðarfélög eða aðrir sem eiga í viðskiptum við bankann. Að sjá gögn um þeirra viðskipti við bankann sett á síður Morgunblaðsins. Það var voðalega sorglegt fannst mér,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert