Grímuklæddir menn sitja um heimili hjá saklausum pilti

Óskar Örn Óskarsson
Óskar Örn Óskarsson Mynd vf.is

Óskar Örn Óskarsson, nemandi í 10. bekk Njarðvíkurskóla, á ekki sjö dagana sæla. Yfir hann rignir hótunum úr öllum áttum um að gengið verði frá honum. Fyrir misskilning hefur Óskar Örn verið dreginn inn í atburðarás þar sem hann var víðsfjarri. Óskari Erni er gert að sök að hafa verið einn af piltunum sem tóku þátt í grófu ofbeldi gegn skólafélaga sínum og tekið var upp á myndband við Njarðvíkurskóla í síðustu viku. Óskar er hins vegar nafni og jafnaldri eins af piltunum.

Í gærkvöldi var setið um heimili Óskars Arnar og meðal annars voru tveir grímuklæddir menn komnir upp á húsþak á heimili hans.

Móðir Óskars Arnar segir í samtali við vf.is að hótanir gegn syni sínum hafi magnast mjög  síðustu daga. Í fyrstu hafi þau haldið að þetta myndi ganga yfir um helgina. Það hafi ekki gerst og ástandið nú sé orðið óbærilegt.

Vinsæll bloggari á blog.is birti nöfn fyrir fjórum sólarhringum, sem hann segir að séu nöfn piltanna á ofbeldismyndbandinu. Þar er meðal annars nafnið Óskar Páll. Einhverra hluta vegna beinast hótanirnar gegn Óskari Erni, sem var ekki þátttakandi í ofbeldinu á myndbandinu.

Hótanirnar koma víða að og eru ógnvekjandi. Þær valda Óskari Erni og fjölskyldu hans vanlíðan. Stjórnendur Njarðvíkurskóla eru meðvitaðir um þau miklu óþægindi sem Óskar Örn og fjölskylda hans hafa orðið fyrir. Óskar Örn sé fyrirmyndarnemandi í 10. bekk sem sé nú borinn röngum sökum. Hótanir um ofbeldi séu ólíðandi og það sé aðkallandi að leiðrétta strax þann misskilning sem kominn er upp. Óskar Örn kom hvergi nálægt því ofbeldi og árás sem tekin var upp á myndband á lóð Njarðvíkurskóla á fimmtudag í síðustu viku.

mbl.is