Neitað um viðskipti í Danmörku

mbl.is/Ómar

Jón Auðunn Bogason, háskólanemi í Danmörku, lenti í óskemmtilegri reynslu ásamt móður sinni á dögunum þegar þau voru í versluninni Fona í Lyngby að kaupa nettengingu. Þegar hann var beðinn um að sýna skilríki, og dró þá fram íslenskt ökuskírteini, var honum synjað um afgreiðslu. „Ég tel að hér hafi verið um mismunun að ræða þar sem ég er Íslendingur. Sölumaðurinn upplýsti mig um að ef ég kæmi frá Svíþjóð eða Noregi þá gæti ég verslað við þá þrátt fyrir að vera hvorki með danskan passa né danskt ökuskírteini.“

Jón Auðunn ákvað að nýta sér tilboð sem sölumaður kynnti fyrir honum með 3G-internetþjónustu frá danska fyrirtækinu 3.

„Ég skellti mér á tilboðið og næsta skref var að ganga frá greiðslu. Sölumaðurinn vildi fá að sjá skilríki með mynd og bað annaðhvort um vegabréf eða ökuskírteini. Ég var ekki með vegabréf með mér en sýndi honum íslenska ökuskírteinið mitt. Þegar hann rak augun í að ökuskírteinið væri íslenskt sagðist hann muna að það væri eitthvað í sambandi við íslensk ökuskírteini og því þyrfti hann að hafa samband við þjónustuborð hjá fyrirtæki sínu. Hann hringdi og fékk upplýst hjá öðrum starfsmanni að hann mætti ekki selja mér þessa þjónustu án þess að ég myndi sýna honum danskan passa eða danskt ökuskírteini,“ segir Jón Auðunn.

Þau sættu sig ekki við þessi svör og báðu sölumanninn að hafa aftur samband við þjónustuborð sitt, þar sem um misskilning hlyti að vera að ræða. Eftir það símtal vildi sölumaðurinn fá að sjá landvistarleyfi frá Jóni þar sem hann gat ekki sýnt danskt vegabréf. Engu skipti þótt hann væri með danskt sjúkrasamlagsskírteini, sem ekki fæst nema að vera með lögheimili í Danmörku, danskt skólaskírteini og dönsk greiðslukort.

„Móðir mín benti honum á að við þyrftum ekki landvistarleyfi þar sem við komum frá Norðurlöndum og bað hann því um að hringja aftur. Sölumaðurinn hringdi í þriðja sinn en starfsmaður þjónustuborðsins sagðist meira að segja ekki nenna að eyða tíma sínum í að útskýra þetta fyrir okkur. Þegar hér var komið var okkur nóg boðið og báðum við um að fá að tala við yfirmann sölumannsins. Það skal tekið fram að hann reyndi eftir fremsta megni að ná í hann en án árangurs. Sölumaðurinn tók niður símanúmerið mitt en ég hef ekkert heyrt frá þeim eftir þetta,“ segir Jón Auðunn, sem hefur verið í háskólanámi í Danmörku síðan í ágúst. Áður var hann búsettur í rúm tíu ár í Danmörku ásamt fjölskyldu sinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert