Vafasamt að endurgreiða skatta

mbl.is/Brynjar Gauti

„Það er mjög vafasamt í prinsippinu að taka þá ákvörðun eftir á að endurgreiða fólki skatta úr ríkissjóði,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, í umræðum um frumvarp sem á að ýta undir útflutning notaðra bíla með endurgreiðslu vörugjalda og virðisaukaskatts. Velti Helgi því upp hvort ekki þyrfti að setja þak á þá greiðslu sem gæti verið með hverjum bíl til að koma í veg fyrir að um „óhóflegar styrkveitingar til efnafólks“ verði að ræða, þ.e. þeirra sem selja úr landi mjög dýra bíla.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sagði að þá gæti skapast hætta á að dýrir bílar yrðu ekki fluttir úr landi og þá fengjust ekki þær gjaldeyristekjur sem vonast væri eftir með frumvarpinu. Hann lagði einnig til að tímabilið sem endurgreiðslan verður heimiluð á yrði stytt fremur en að setja takmörk fyrir heildarfjárhæð úr ríkissjóði, en Helgi varaði við því að lögin yrðu eins og opinn tékki.

Álfheiður Ingadóttir, VG, gaf lítið fyrir frumvarpið, sem hún vísaði til sem „Range Rover málsins“. Þótti henni skjóta skökku við að nota 1,5-2 milljarða króna í þetta þar sem að mestu væri um mjög dýra bíla að ræða. „Ef ríkisstjórnin ætlar að fara að fella niður skatta á fólkið og gjöld þá er hér byrjað á öfugum enda,“ sagði Álfheiður og taldi enga tryggingu fyrir að umræddar gjaldeyristekjur skiluðu sér til landsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert