Eignir Landsbanka duga ekki fyrir Icesave

Retuers

Talið er að eignir Landsbankans í útlöndum nemi á bilinu 800-1200 milljörðum króna. Ef gert er ráð fyrir því að eignirnar séu um 1000 milljarðar má gera ráð fyrir að 140-160 milljarðar falli á íslenska ríkið vegna skuldbindinga Iscesave-reikninga Landsbankans.

Þetta kom fram hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, á Alþingi í dag en hún vísaði til upplýsinga frá skilanefnd Landsbankans, sem gefnar voru á fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun.  

Um er að ræða skuldbindingar vegna Icesave-reikninga í Bretlandi og Hollandi, en þær eru um 625 milljarðar króna. Þá eru skuldbindingar vegna Kaupþing Edge reikninga í Þýskalandi um 40 milljarðar. Ingibjörg Sólrún sagði að ólíklegt væri að skuldbindingar vegna þeirra reikninga féllu á ríkið. 

mbl.is