Unnið að útboði á rannsóknarleyfum á Drekasvæði

Drekasvæðið.
Drekasvæðið. mbl.is/KG

Iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun vinna nú að undirbúningi fyrsta útboðs á sérleyfum til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæði með góðri aðstoð og stuðningi ýmissa aðila. Útboðstímabilið hefst um miðjan janúar 2009 og lýkur 15. maí 2009. 

Úthlutun leyfa verður takmörkuð við allt að fimm leyfi samtals í þessari umferð. Hver leyfishafi  fær aðeins úthlutað einu leyfi. Stærð hvers leyfissvæðis verður einnig takmörkuð við allt að 800 ferkílómetra. Tekið verður mið af vilja viðkomandi fyrirtækja til að styðja rannsókna- og menntunarsjóð olíuleitar á íslenska landgrunninu, sem stofnað verður til á vegum þeirra í samstarfi við Orkustofnun.

Létt hefur verið leynd af sameiginlegum hljóðbylgjumælingum á Jan Mayen hrygg og túlkunum Norðmanna og Íslendinga á þeim frá níunda áratugnum. Skýrslur með úrvinnslu á sameiginlegum gögnum og mati á auðlindum, sem áður voru trúnaðarmál, hafa verið birtar á vef Orkustofnunar. Nýtt auðlindamat fyrir norðurhluta Drekasvæðisins á grundvelli eldri og yngri gagna er í vinnslu fyrir Orkustofnun hjá Íslenskum orkurannsóknum, og er skýrsla væntanleg í tæka tíð fyrir opnun tilboða.

Ráðuneytið segir, að þótt miklar vonir séu bundnar við að olía og gas finnist á norðanverðu Drekasvæðinu, þá verði ekkert sannað í því efni fyrr en með árangursríkum borunum. Með útboði sérleyfa taki sérhæfð olíuleitarfyrirtæki á sig áhættuna sem fylgi kostnaðarsömum rannsóknum og borunum. Þær rannsóknir muni ná yfir nokkur ár, í kjölfar samninga um skilmála fyrir sérleyfi. Óverulegar tekjur skapist fyrir Íslendinga í tengslum við rannsóknirnar. Framleiðslugjald og skattlagning hagnaðar komi fyrst til þegar vinnsla er hafin, samhliða því sem þá megi vænta atvinnuuppbyggingar til frambúðar. 

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi er nú til meðferðar hjá iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd að lokinni fyrstu umræðu á Alþingi. Frumvarp til laga um skattlagningu vegna olíuleitar og vinnslu er á lokastigi hjá fjármálaráðuneyti og verður lagt fyrir ríkisstjórn og þingflokka á næstu dögum.

Iðnaðarráðuneytið segir, að þessi tvö frumvörp þurfi að fá meðferð Alþingis og verða að lögum fyrir jól til að útboðið geti farið fram. Samningur við Norðmenn um einingarnýtingu kolvetnisauðlinda yfir lögsögumörk var undirritaður 3. nóvember sl., ásamt samkomulagi um útfærslu á gagnkvæmri hlutdeild í leyfum á samningssvæðinu við Jan Mayen hrygg, samkvæmt samningi þjóðanna frá 1981.
   
Að undangengnu lokuðu útboði hafa iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun tekið tilboði íslensku lögmannsstofunnar BBA//Legal um lögfræðiráðgjöf vegna undirbúnings útboðs á Drekasvæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina