48% starfsmanna arkitekta horfa fram á atvinnuleysi

Fulltrúar Arkitektafélags Íslands (AÍ) og Félags Arkitektastofanna (FSSA) fóru á fund forsætisráðherra þann 29. nóvember og afhentu honum ályktun félaganna varðandi atvinnuhorfur stéttarinnar og fyrirsjáanlegt hrun byggingaiðnaðarins.  Félögin lögðu áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld haldi uppi atvinnustigi við núverandi aðstæður.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá félögunum að í kjölfar neyðarlaga ríkisstjórnarinnar og falls viðskiptabankanna hafa flest verkefni stöðvast hjá arkitektum. Það hafi víðtækar afleiðingar þegar opinberir aðilar, ríki og sveitafélög stöðvi undirbúning opinberra framkvæmda með  afgerandi og samstilltum hætti eins og tilmæli fjármálaráðuneytisins segi til um. FSSA hefur fylgst með þróuninni hjá aðildarfélögum sínum og er ljóst að 48% starfsmanna á stofum innan vébanda FSSA horfa nú fram á atvinnuleysi frá og með 1. febrúar næstkomandi

Ályktunin fylgir í heild hér á eftir:

 Ályktun aðalfundar Arkitektafélags Íslands 17. nóvember 2008

Aðalfundur Arkitektafélags Íslands bendir á mikilvægi þess að leggja ekki niður undirbúningsvinnu að framtíðarverkefnum þótt tímabundin stöðnun verði vegna óvænts ástands í þjóðfélaginu. Vonir eru bundnar við að um tímabundið ástand sé að ræða og er því afar mikilvægt að verkefni séu tilbúin til framkvæmda þegar samfélagið fer að rétta við á ný.

 

Hrun verkefna

Í kjölfar neyðarlaga ríkisstjórnarinnar og falls viðskiptabankanna hafa flest verkefni stöðvast hjá arkitektum. Það hefur víðtækar afleiðingar þegar opinberir aðilar, ríki og sveitafélög stöðva undirbúning opinberra framkvæmda með afgerandi og samstilltum hætti eins og tilmæli fjármálaráðuneytisins segja til um.

FSSA hefur fylgst með þróuninni hjá aðildafélögum sínum og er ljóst að 48% starfsmanna á stofum innan vébanda FSSA horfa nú fram á atvinnuleysi frá og með 1.febrúar næstkomandi.

Arkitektafyrirtækin hafa almennt verið skuldlítil eða skuldlaus en þau munu eiga í miklum erfiðleikum með að lifa af næstu mánuði.

Launakostnaður er um 70% af rekstrarkostnaði. Uppsagnartími starfsfólks er 3 mánuðir og þar við bætist uppsöfnuð orlofsréttindi að meðaltali 20 dagar sem jafngildir einum mánuði í viðbót.

Fyrirtækin sem stóðu frammi fyrir stöðvun verkefnaum miðjan október eru því með fastan kostnað í fjóran og hálfan mánuð en ekki verkefni til að selja út á móti. Það liggur því í hlutarins eðli að slagkraftur þessara fyrirtækja til að standa með sínu fólki á vormánuðum verður lítill sem enginn.

 

Gangsetning stöðvaðra verkefna.

Það er forgangsmál að gangsetja verkefni aftur án tafar sem teljast þjóðhagslega hagkvæm og mannaflsfrek. Bráðnauðsynlegt er að ríkið tryggi sveitafélögunum fjármagn þannig að þau geti staðið við áætlanir.Það er rétt að ítreka að fjöldi þeirra verkefna sem hér um ræðirkallar ekki á kostnaðarsamar byggingaframkvæmdir. Má þar nefna skipulagsverkefni, viðhaldsverkefni og húsakannanir. Hönnun er lítill hluti framkvæmdakostnaðar (rúm 10%) og vandaður og ígrundaður undirbúningur framkvæmda eykur gæði, skilvirkni í framkvæmd og er þjóðhagslega hagkvæmur. Hér er því vakin athygli stjórnvalda á mikilvægi þess að halda áfram undirbúningi framkvæmda og áætla hæfilegan tíma í undirbúning og hönnun. Verkefnin verða þá tilbúin til framkvæmda þegar efnahagslífið réttir úr kútnum og komið verður í veg fyrir langtíma fjöldaatvinnuleysi meðal annarra stétta í byggingargeiranum.

 

Nauðsyn aðgerða núna

Stjórnvöld verða að beita sér af fullum þunga til að halda verkefnum gangandi. Skoða þarf sérstaklega stöðu sveitarfélaga og möguleika þeirra til að viðhalda atvinnustigi. Það er krafa að stjórnvöld bregðist við því efnahagsástandi sem nú ríkir hér á landi og gangsetji verkefni strax og komi í veg fyrir að þúsundir manna verði atvinnulausir og gangsetji þau verkefni sem hægt er. Mannauðurinn er mikilvægasta og dýrmætasta auðlind íslensku þjóðarinnar. Stórfelldur landflótti mennta- og hæfileikafólks getur orðið stærsta og alvarlegasta afleiðing efnahagshrunsins.

 

Baráttukveðjur.

 

AÍ - Arkitektafélag Íslands

FSSA – Félag Arkitektastofa

 

Sigríður Magnúsdóttir formaður AÍ

Baldur Ó Svavarsson stjórn AÍ

Aðalsteinn Snorrason formaður FSSA

Halldór Eiríksson stjórn FSSA

Helga Benediktsdóttir stjórn FSSA

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert