„ Særandi að vera sakaður um glannalegar athafnir “

Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands.
Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands. mbl.is/Ómar

„Við þurfum ekki að fara dult með það að fjármálahrunið kom flestum Íslendingum í opna skjöldu. Yfirleitt gerðu menn sér ekki grein fyrir því að öll þjóðin hefði verið látin bera ábyrgð á þessari svonefndu útrás og hátimbruðum höllum peninganna, sem voru í öllum fréttum kynntar með glæsibrag,“ sagði Vigdís Finnbogadóttir, fyrrv. forseti, þegar hún ávarpaði fund sendiráðs Íslands í London gær.

Að sögn Vigdísar fylgir því mikill andlegur sársauki þegar vegið er að sjálfsvirðingu þjóðarinnar, en þá sé jafnframt brýnt að festa sig ekki við dóma annarra, heldur vita sjálfur gleggst fyrir hvað maður standi og skoða það grannt. „Það býr mikið sameiginlegt stolt í Íslendingum og við finnum fyrir ríkri sjálfsvirðingu,“ sagði Vigdís og tók fram að þeir sem orðið hefðu fyrir áfalli mættu sækja styrk í þá staðreynd. Hún sagði það særandi þegar fjallað væri um Íslendinga eins og þeir allir sem heild hefðu staðið að glannalegum athöfnum sem ekki hafa reynst för til frægðar. „Við venjulegt íslenskt fólk göngum til daglegra verka ugglaus og samviskusöm, vinnusöm og heiðarleg og það er einmitt þessi vinnusemi og heiðarleiki sem gerði okkur að sjálfstæðri þjóð.“

Að mati Vigdísar er mikilvægt nú um stundir að Íslendingar standi þétt saman og leiti styrks í því stóra sem þjóðin eigi saman. Nefndi hún í því samhengi landið, tunguna, menntun, hugvit og afkomendur. „Nú, á tímum andstreymis, þurfum við að virkja allt það hugvit sem býr í okkur, öllum sem einum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert