Skikkaður til Póllands

Vél Iceland Express til Kaupmannahafnar þann sextánda desember millilendir í Varsjá í Póllandi. Þetta þýðir að farþegarnir þurfa að mæta á flugvöllinn rúmlega tvö um nóttina og vera sex tíma á ferðinni í staðinn fyrir þrjá.  Guðjón Ragnar Jónasson  sem er á leið á ráðstefnu og  keypti farseðil á sérstöku hausttilboði segist fá þær skýringar að þetta sé vegna óumflýjanlegrar hagræðingar.

Hann var farinn að hlakka til þar til hann fékk bréf frá flugfélaginu. Þar var honum sagt að vélin þyrfti að millilenda í Varsjá í Póllandi og í stað þess að hún verði á áætlun klukkan rúmlega sjö, fari vélin í loftið klukkan fjögur um nóttina. Þá kemur fram að innritun á Keflavíkurflugvelli er opnuð á þriðja tímanum.

Þegar Guðjón kvartaði við flugfélagið var honum boðið að fá miðann endurgreiddan eða fara einum degi fyrr eða seinna. Það segir Guðjón hinsvegar ekki vera möguleika í stöðunni. Hann sé á leið á ráðstefnu í tiltekinn tíma og eigi hvorki erindi degi fyrr eða seinna. Þá finnist honum súrt að fá miða endurgreiddan sem hann hafi haft fyrir að kaupa á sérstöku tilboðsverði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert