Fréttaskýring: Hamfarir á hrávörumörkuðum

Álframleiðendur víða um heim hafa verið að skera niður kostnað …
Álframleiðendur víða um heim hafa verið að skera niður kostnað til þess að mæta miklum verðlækkunum á áli. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Í stuttri fréttaskýringu í tölublaði The Economist sem kom út í október undir heitinu Á meðan, í hinu raunverulega hagkerfi (Meanwhile in the real economy) kom fram að vandræði banka um allan heim hefðu mikil skammtímaáhrif til hins verra, en hamfarirnar sem ættu sér stað hrávörumörkuðum ættu eftir að hafa meiri og víðtækari áhrif. Þar ræður mestu að framleiðslugreinar eru hin „eina sanna“ undirstaða hagkerfa, eins og það er orðað.
Verðfall á hrávöru undanfarna fjóra til fimm mánuði hefur verið það langsamlega mesta og hraðasta í sögunni. Fatið af olíu hefur lækkað úr 147 dollurum um miðjan júlí niður í um 40 dollara nú. Það er um nærri 73 prósent. Svipaða sögu má segja um aðra hrávöru, svo sem málma, fisk og hveiti. Allt hefur lækkað um tugi prósent samhliða verðlækkun á olíu.

Fyrirséðar sviptingar?

Fréttskýrendur fagtímarita um viðskipti eru flestir hverjir sammála um að alþjóðlega fjármálakrísan, sem fellt hefur banka um allan heim, sé eitt en verðfallið á hrávörumörkuðum annað. Hvoru tveggja hefur þó áhrif hvort á annað.

Alþjóðlega „bólan“ sem nú er sprungin, sem drifin var áfram af lánsfjármagni, gerði framleiðslufyrirtækjum kleift að ráðast í miklar fjárfestingar. Eftirspurn jókst mikið samhliða því að fólk hafði meira á milli handanna. Þetta leiddi til þess að verð á nánast allri hrávöru hækkaði mikið og hratt á árunum 2003 fram á mitt þetta ár.

Kaupsýslumaðurinn Georges Soros segir í bók sinni The New Paradigm for Finicial Markets að þetta ástand hafi „aldrei verið eðlilegt“ og því hafi fjárfestar vitað, innst inni, að bólur hafi myndast. „Samt tóku menn þátt í þessu, ég þar á meðal,“ segir Soros meðal annars í bókinni.

Bólueinkennin á hrávörumörkuðunum blöstu við, þegar hrikti í stoðum bandaríska húsnæðislánakerfisins um mitt ár í fyrra. Hlutabréf tóku þá að falla í verði. Margir fjárfestar færðu þá fjárfestingar yfir í hrávöru, meðal annars gull og málma, til þess að auka líkur á ávöxtun. Eftir því sem vandamál fjármálastofnanna dýpkuðu því meira hækkaði verð á hrávörumörkuðum, þvert á spár margra. Þetta var þó skammgóður vermir, eins og búast mátti við. Vandamál á fjármálamörkuðum fóru fljótlega að hafa svo víðtæk áhrif að hagkerfi heimsins nötruðu. Ekki sér enn fyrir endann á þeirri þróun.

Á vormánuðum voru strax blikur á lofti á hrávörumörkuðum. Aðgengi að fjármagni var orðið erfitt en framboð af vörum enn umtalsvert. Draga tók verulega úr eftirspurn eftir vörum. Í kjölfarið fóru fyrirtæki, fjárfestar og opinberir aðilar út um allan heim að halda að sér höndum. Þá tók verð á hrávöru að hrapa. Í því ferli eru hrávörumarkaðir nú, og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Áhrifin af þessari þróun á einstök svæði í heiminum hafa verið mikil. Lönd í Austur-Evrópu sem byggja mikið á málmframleiðslu eru mörg hver í miklum efnahagsvanda. Úkraína er dæmi um þetta en stálframleiðsla er stærsta útflutningsgrein landsins. Stál hefur fallið um tæplega 80 prósent í verði á innan við fimm mánuðum. Samhliða nánast lokuðum fjármálamörkuðum var neyðarhjálp frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eina leiðin. Svo fór að lokum að sjóðurinn lánaði Úkraínu 16 milljarða dollara gegn fjölþættum skilyrðum um efnahagsúrbætur.

Skýr áhrif á íslenskt efnahagslíf

Þó hrun íslenska bankakerfisins hafi haft gríðarlega mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf, sem kallaði á hjálp frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þá gætu verðlækkanir á hrávörumörkuðum haft enn meiri áhrif til lengri tíma. Verð á áli hefur lækkað úr 3.400 dollurum í júlí niður í um 1.400 dollara nú. Sú lækkun hefur bein áhrif á orkusölu opinberra orkufyrirtækja til álvera, þar sem orkuverðið sveiflast með heimsmarkaðsverði á áli.

Til viðmiðunar byggir 11,9 prósent arðsemiskrafa á orkusölu Landsvirkjunar frá Kárahnjúkavirkjun til álvers Alcoa á Reyðarfirði á því að heimsmarkaðsverð á áli sé um 1.550 dollarar. Orkufyrirtækin hafa þó leiðir til þess að minnka áhrif af svo hröðu verðfalli eins og undanfarna mánuði. Með afleiðusamningnum geta þau tryggt sig fyrir sveiflum. Því er líklegra að áhrifin á orkufyrirtækin af verðfallinu á áli komi fram eftir nokkra mánuði með skýrari hætti, haldist verðið áfram lágt.

Verð á fiski hefur lækkað mikið á alþjóðamörkuðum, eða um 20 til 40 prósent. Verðið er þó misjafnt eftir mörkuðum og einnig eftir því hvort fiskurinn er eldisfiskur eða veiddur í villtum fiskistofnum. Fiskurinn sem seldur er frá Íslandi er nær allur veiddur úr villtum fiskistofnum. Veiking krónunnar undanfarna mánuði hefur gert það að verkum að sjávarútvegsfyrirtæki hafa fengið gott verð fyrir afurðir sínar í krónum talið. Áhrifin af verðlækkunum hafa því ekki verið eins mikil og ætla mætti. Líklegt má telja að þetta breytist eftir því sem krónan styrkist. Þá mun lágt afurðaverð og minnkandi eftirspurn vera helstu rekstrarvandmál fyrirtækjanna.

Mikil óvissa

Ef það er eitthvað sem hægt er að reiða sig á, miðað við reynslu síðustu ára, er að ómögulegt er að spá fyrir um verðþróun á hrávöru. Miklar sveiflur hafa einkennt hrávörumarkaði undanfarin ár þó aldrei hafi sveiflan verið eins mikil niður á við og nú.

Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og pistlahöfundur The New York Times, telur að efnahagsniðursveifla í heiminum öllum, það er mikil lækkun á hrávörum samhliða erfiðleikum fjármálastofnanna, geti varað í allt að áratug. Það mat Krugmans, sem er einna þekktastur er fyrir að vera sannspár um erfiðleika á húsnæðismörkuðum, gefur vísbendingu um það sem koma skal og er þegar farið að valda vandræðum.

Verðfall á olíu hefur aldrei verið eins mikið og undanfarna …
Verðfall á olíu hefur aldrei verið eins mikið og undanfarna fimm mánuði, eða rúmlega 70 prósent. Hér sést Statfjord A borpallurinn í Norðursjó. Øyvind Hagen/StatoilHydro
Yulia Tymoshenko, fosætisráðherra Úkraínu, hefur ekki mikla ástæðu til þess …
Yulia Tymoshenko, fosætisráðherra Úkraínu, hefur ekki mikla ástæðu til þess að fagna. Verðfall á stáli samhliða erfðileikum banka í landinu hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnhag landsins. Stál er ein helsta útflutingsvara Úkraínu en það hefur lækkað um næstum 80 prósent í verði. GLEB GARANICH
Fiskur hefur lækkað um 20 til 40 prósent í verði …
Fiskur hefur lækkað um 20 til 40 prósent í verði á alþjóðamörkuðum undanfarna mánuði. Minnkandi eftirspurn ræður þar miklu. Halldór Sveinbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert