Persson: Íslendingar mega ekki bíða

Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar.
Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar. Reuters

Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að Íslendingar geti komist í gegnum kreppuna. Það muni hins vegar verða erfitt. Persson segir mikilvægt að menn grípi þegar í stað til aðgerða þótt þær kunni að verða óvinsælar. Íslendingar megi ekki bíða, þeir verði að taka frumkvæðið.

Þetta kom fram í fyrirlestri Perssons í Hátíðarsal Háskóla Íslands í dag. Persson sagði að hann teldi ekki að Íslendingar gætu lengur haldið úti jafn litlum gjaldmiðli og íslenska krónan er og vísaði m.a. til verðbólgunar hér á landi. Þá sagði hann, að Svíþjóð væri í allt öðrum sporum í dag er landið hefði ekki gengið í Evrópusambandið.

Persson er kominn hingað til lands á vegum Samtaka fjárfesta. Í fyrirlestrinum,  sem bar yfirskriftina Lærdómur Svía af fjármálakreppu tíunda áratugarins – byrðunum dreift og nýjar vonir vaktar, fjallaði Persson m.a. um þá bankakreppu, sem Svíar lentu í við upphaf 10. áratugarins. Sagði Persson, að Svíum hafi tekist að komast í gegnum kreppuna og það muni Íslendingar einnig gera. Hins vegar séu aðstæður á Íslandi í dag gjörólíkar því sem var í Svíþjóð fyrir um 15 árum. Raunar sé staðan sé allt önnur á alþjóðavettvangi og í fyrsta sinn finni menn fyrir samdrætti um allan heim.

Í fyrirlestrinum kom fram að Svíar gengu í gegnum miklar efnahagsþrengingar á árunum uppúr 1990. Þær þrengingar sneru m.a. að bönkunum og sænsku fjármálakerfi sem gekk í gegnum verulega uppstokkun í kjölfar erfiðleikanna. Persson gegndi á þessum tíma starfi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Svíþjóðar og kom í hans hlut að ráða fram úr þeim erfiðleikum sem að þjóðinni steðjuðu.

Svíar ákváðu í framhaldinu að sækja um aðild að ESB, og að sögn Perssons skipti það sköpum fyrir Svía. Hann segir að hann hafi haft sínar efasemdir um bandalagið á sínum tíma. Á endanum hafi hann komist á þá skoðun að það væri nauðsynlegt að stíga þetta skref. Hann segir að staðan væri allt önnur í Svíþjóð í dag ef Svíar hefðu ekki gengið inn í ESB.

Menn grípi til aðgerða

Persson segir að fólk geti rætt um ólíkar efnahagsaðgerðir, haldið fyrirlestra um þjóðhagfræði eða haldið námskeið um fjárlagahalla. En þegar öllu sé á botninn hvolft þá skipti aðgerðir meira máli en orð. Íslendingar eigi ekki að bíða eftir því hvað aðrir segja þeim að gera.

Hann sagði, að Svíar hafi á sínum tíma ákveðið að taka málin í sínar hendur og taka frumkvæðið. Þeir hafi vitað það betur en aðrir hvað átti að gera. Að sögn Perssons var ekki erfitt að sjá hvað ætti að gera, heldur að gera það.

Svíar byrjuðu á bankakerfinu

Sænsk stjórnvöld byrjuðu á bankakerfinu, en Persson bendir á að það sé ekki hægt að bera það saman við Ísland nú þar sem aðstæður séu afar sérstakar. Í raun hafi þar orðið stórslys þegar bankarnir urðu 10 sinnum stærri en verg þjóðarframleiðsla.

Svíar þjóðnýttu bankana, segir Persson og á endanum fengu þeir  allar krónunnar til baka sem sænska ríkið greiddi fyrir skuldir bankanna. Það sé hins vegar erfiðara fyrir Ísland.

Næst var tekið á fjárlögunum. Það var erfiðast að sögn Perssons. Hann sagði að á Íslandi  muni hlutirnir verða erfiðari.  Greiði Íslendingar alla verga þjóðarframleiðslu til að leysa bankakreppuna muni greiðslubyrðin aukast gríðarlega og vextirnir ofan á það.

Næstu ár verða erfið

Persson sagði, að menn verði að reikna með erfiðum árum á næstunni þar sem verg þjóðarframleiðsla muni minnka umtalsvert. Neyslan muni minnka sem og innflutningur. Atvinnuleysið mun hins vegar aukast og skera verði niður fjárlögin. 

Persson sagði, að Íslendingar gætu endað á því að fá lán til að greiða vextina af þeim lánum sem þeir fengu til að greiða niður skuldir bankanna. Það muni kalla á hærri skatta eða minni opinber útgjöld. Hins vegar sé ekki hægt að fá endalaust lán til að greiða vexti af öðrum lánum. Markaðurinn myndi á endanum refsa krónunni harkalega ef það gerist. Málið snúist um trúverðugleika og menn verði grípa til skynsamlegra aðgerða.

Persson sagðist  hafa gert það og orðið um leið hataðasti maður Svíþjóðar. Það hafi hins vegar verið þess virði. Ákveði Íslendingar að grípa til raunhæfra aðgerða sendi það út þau boð, að Ísland vilji ráða örlögum sínum sjálft.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert