Raddir fólksins heimsækja ríkissaksóknara

Hópur fólks með Hörð Torfason í broddi fylkingar sem kalla sig Raddir fólksins safnaðist saman hjá embætti ríkissaksóknara við Hverfisgötu eftir hádegið. Þrír fulltrúar úr hópnum hittu Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknara á fundi sem stóð í um fjörutíu mínútur og bað um rannsókn á falli Glitnis í kjölfar þess að þrálátur orðrómur væri uppi um meinta refisverða háttsemi þeirra sem hefðu komið við sögu við fall bankans. 

Hörður Torfason segir ríkissaksóknara hafa verið elskulegan og tekið hópnum vel. Hann segist telja að hópurinn fái svar við beiðni sinni á næstu dögum. 

Bent er á í yfirlýsingu frá hópnum að á síðustu dögum hafi komið fram að endurskoðendur stærsta hluthafa Glitnis hafi mánuðum saman verið í fullri vinnu við að endurskoða sjálfa sig án vitneskju yfirstjórnar Fjármálaeftirlits og bankamálaráðherra um meint ólögmæt hagsmunatengsl.

Þá greini formann bankastjórnar Seðlabankans og forsætisráðherra á um grundvallaratriði í falli Glitnis og fjármálaráðherra hafi orðið ber að  vanþekkingu á grundvallaratriðum.

Grundvelli réttarríkisins sé ógnað og dómsvaldið hafi brugðist skyldum sínum í þessari grafalvarlegu stöðu. Dómsmálaráðherra beri að segja af sér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert