Embætti sérstaks saksóknara auglýst

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra.
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur auglýst laust til umsóknar embætti sérstaks saksóknara. Hann mun veita forstöðu rannsóknar- og saksóknaraembætti skv. lögum sem taka gildi í dag. Umsóknarfrestur er til 29. desember nk. og mun dóms- og kirkjumálaráðherra skipa í embættið frá og með 1. janúar 2009, eða svo fljótt sem verða má.

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu kemur fram að saksóknarinn mun rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar bankahrunsins, hvort sem það tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga, og eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með saksókn.

Rannsóknar- og ákæruheimildir embættisins taka meðal annars til efnahags-, auðgunar- og skattabrota, þar með talið brota sem rannsökuð hafa verið af skattrannsóknarstjóra ríkisins, Samkeppniseftirlitinu og Fjármálaeftirlitinu og sem þessar stofnanir hafa kært til lögreglu.

Sérstaklega er kveðið á um það í lögunum að hinn sérstaki saksóknari hafi eftir þörfum samstarf við skattrannsóknarstjóra ríkisins, Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og aðrar réttarvörslu- og eftirlitsstofnanir. Sé þess óskað skulu þessar stofnanir veita hinum sérstaka saksóknara upplýsingar um stöðu mála sem þær hafa til meðferðar. Er saksóknaranum þannig veittur kostur á að koma að málum fyrr og t.d. koma á framfæri afstöðu til þess hvort mál eigi að fara til opinberrar meðferðar. Er þetta fyrirkomulag fallið til að stuðla að vandaðri undirbúningi opinberrar málsmeðferðar.

Sérstakt ákvæði um uppljóstrara er í lögunum. Nánar tiltekið er ríkissaksóknara heimilt að ákveða, að uppfylltum ákveðnum þröngum skilyrðum, og að fenginni rökstuddri tillögu frá hinum sérstaka saksóknara, að sá sem hefur frumkvæði að því að bjóða eða láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar eða gögn, sæti ekki ákæru þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að broti hans sjálfs.

Skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar er meðal annars að talið sé líklegt að þessar upplýsingar eða gögn geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn. Þá er það skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar að rökstuddur grunur sé um að upplýsingar eða gögn tengist alvarlegu broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir broti.

mbl.is

Bloggað um fréttina