Uppsagnir dregnar til baka á SkjáEinum

SkjárEinn mun halda áfram útsendingum og flestir starfsmenn stöðvarinnar verða endurráðnir. Segir í tilkynningu frá Skjánum, að þessi ákvörðun sé tekin að því gefnu að umsvif Ríkisútvarpins á auglýsingamarkaði verði takmörkuð en frumvarp þess efnis er nú til umfjöllunar á Alþingi. 

Sigríður Margrét Oddsdóttir, sjónvarpsstjóri, sagði að 45 starfsmenn hefðu fengið uppsagnarbréf í vetur. Fjórir þeirra fá ekki endurráðningu og tveimur verður boðin tímabundin ráðning ef allt fer sem horfið.

Í tilkynningu frá Skjánum segir, að að reikna megi  með að sú ráðstöfun, að takmarka aðgang RÚV að auglýsingamarkaði, efli tekjugrunn SkjásEins sem reiði sig eingöngu á auglýsingatekjur. Á undanförnum vikum hafi verið endursamið við erlenda birgja SkjásEins og efniskostnaður lækkaður. Þessar tvær breytingar á rekstrargrunni stöðvarinnar, annars vegar lækkun efniskostnaðar og hins vegar sanngjarnara samkeppnisumhverfi á auglýsingamarkaði, geri það að verkum að forsvarsmenn SkjásEins hafi ákveðið að halda rekstrinum áfram.

Skjárinn sér um rekstur auglýsingasjónvarpsstöðvarinnar SkjásEins,  SkjásBíós og SkjásHeims.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert