Lokað fyrir netaðgang fanga

Til stendur að reyna að loka fyrir allar gáttir að …
Til stendur að reyna að loka fyrir allar gáttir að internetinu á Litla-Hrauni Ómar Óskarsson

Unnið er nú að því á Litla-Hrauni að koma upp tæknibúnaði sem komið geti í veg fyrir að fangar komist á netið. Fangar mega hafa tölvu á herbergjum sínum undir eftirliti vegna fjarnáms en færst hefur í aukana að svonefndum netpungum sé smyglað inn í fangelsið. Þannig hafa fangar geta komist á netið án vitneskju fangavarða með 3G sambandi, en pungarnir eru bannaðir innan fangelsisveggjanna.

„Þetta er á tilraunastigi,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri. „Við erum að skoða allar þann búnað sem í boði er til að reyna að tryggja með þessu móti að fangar komist ekki á internetið.“

Eins og frægt er orðið sendi refsifangi á Litla-Hrauni tilkynningu um andlát samfanga síns í Morgunblaðið í gegnum netið nú fyrr í vikunni. Þetta brot fanganna gæti leitt til endurskoðunar á tölvunotkun refsifanga, en vonast er til að leysa megi málið með því að útiloka „bakdyrainngang“ að netinu með hjálp tækninnar, án þess að svipta alla fanga réttinum að tölvunotkun.

„En ef þetta gengur ekki eftir, þá þurfum við að skoða þann möguleika að takmarka hreinlega tölvuaðgengi fanga yfirhöfuð, ef þeir halda áfram að misnota þennan aukabúnað,“ segir Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka