Örn Clausen hæstaréttarlögmaður látinn

Örn Clausen hæstaréttarlögmaður og einn mesti afreksmaður Íslendinga í frjálsum íþróttum á fyrstu árum lýðveldisins, er látinn. Örn lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í gærkvöld, áttræður að aldri. Eftirlifandi eiginkona Arnar er Guðrún Erlendsdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari. Saman áttu þau þrjú börn en Örn átti fjóra syni af fyrra hjónabandi.

Örn Clausen fæddist í Reykjavík 8. nóvember 1928, sonur hjónanna Sesselju Þorsteinsdóttur Clausen og Arreboe Clausen, kaupmanns og síðar bifreiðarstjóra.

Tvíburabróðir Arnar var Haukur Clausen, tannlæknir en hann lést í maí 2003. Hálfbróðir Arnar var Alfreð Clausen, málarameistari og söngvari. Alfreð lést í nóvember 1981.

Örn Clausen lauk stúdentsprófi frá MR árið 1948 og lögfræðiprófi frá HÍ árið 1953 með I. einkunn. Örn fékk héraðsdómslögmannsréttindi árið 1958 en réttindi hæstaréttarlögmanns 1963.

Hann var lögfræðilegur ráðunautur og túlkur hjá öryggisþjónustunni á Keflavíkurflugvelli árið 1953 en það sama ár varð hann forstjóri Trípolíbíós og rak það fyrir Tónlistarfélagið frá árslokum 1953 til hausts 1957. Örn Clausen rak eigin málflutningsskrifstofu í Reykjavík frá 1958 og í félagi við eftirlifandi eiginkonu sína, Guðrúnu Erlendsdóttur frá 1961 til 1978. Örn sinnti lögfræðistörfum allt þar til í maí 2007.

Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum. Sat í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík 1946 til 1948 og var formaður Orators 1950 til 1951. Þá sat Örn í kjaranefnd Lögmannafélags Íslands í nokkur ár, bæði sem formaður og nefndarmaður.

Örn Clausen var í hópi fremstu afreksmanna Íslendinga í íþróttum upp úr miðri síðustu öld, ásamt tvíburabróður sínum, Hauki Clausen, tannlækni, og fleirum. Örn stundaði frjálsar íþróttir á árunum 1946 til 1951 og setti samtals 10 Íslandsmet í grindahlaupum og tugþraut. Hann sigraði í tugþraut á Norðurlandamóti í Stokkhólmi 1949, setti Norðurlandamet í tugþraut 1951 og vann silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu í tugþraut 1950. Þá átti Örn næstbesta árangur heimsins í tugþraut árið 1951.

Eftirlifandi eiginkona Arnar Clausen er Guðrún Erlendsdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari. Þau gengu í hjónaband sumarið 1961. Börn þeirra eru þrjú, Ólafur, rekstrahagfræðingur, Guðrún Sesselja, héraðsdómslögmaður og Jóhanna Vigdís, leikkona. Örn Clausen átti fjóra syni af fyrra hjónabandi en einn þeirra er látinn.

Febrúar 2001. Tvíburabræðurnir Örn Clausen t.v. og Haukur Clausen með …
Febrúar 2001. Tvíburabræðurnir Örn Clausen t.v. og Haukur Clausen með Inga Þorstensson á milli sín, en Ingi var aðalforvígismaður þess að komið var saman til þess að minnast íþróttasigranna fyrir 50 árum. mbl.is/Sigurður Jökull
F.v.; Ingi Þorsteinsson úr KR, Reynir Sigurðsson, ÍR og Örn …
F.v.; Ingi Þorsteinsson úr KR, Reynir Sigurðsson, ÍR og Örn Clausen, ÍR, í 110 m grindahlaupi á Melavelli 1950/1951. Örn Clausen, þá 22 ára laganemi, setti Norðulandamet í tugþraut, hlaut 7.453 stig. mbl.is/Ólafur K. Magnússon
mbl.is