Brown sparkaði í Íslendinga

mbl.is/Ómar

Breska blaðið Sunday Times birtir í dag langa grein eftir blaðamanninn AA Gill um ástandið á Íslandi. Gill gagnrýnir m.a. Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, harðlega og segir hann hafa sparkað í Íslendinga líkt og skólastrákur, sem vilji ganga í augun á stelpunum.

Gill segir, að Brown hafi ýtt íslensku bönkunum fram af bjargbrúninni  með því að frysta íslenskar eignir í Lundúnum á grundvelli hryðjuverkalaga.

„Íslendingum er ekki sama - þeir eru sárir. Þeir héldu alltaf að þeir væru í okkar liði, ekki hinna. En Gordon þurfti að gera eitthvað ómerkilegt til að sýnast hæfur, svo hann réðist á minnimáttar. Það var ekki kinnhestur heldur grimmilegt spark. Hann var að sýnast til að ganga í augun á stelpunum. Hann hefði aldrei gert þetta ef bankarnir hefðu verið þýskir eða franskir eða jafnvel frá Liechtenstein," segir Gill.

Hann bætir við, að Brown hafi sent bandamann á gjörgæslu í þeim tilgangi að fá fyrirsagnir og aukið fylgi í skoðanakönnunum. „En kannski tók hann ekki eftir því sem hann gerði. Kannski horfði hann í gegnum gleraugað sitt," segir Gill. 

Í greininni leggur Gill út frá því, að Íslendingar hafi gegnum tíðina fengið sinn skerf og rúmlega það af óheppni og ósjaldan lent í miklum áföllum en ávallt risið upp. Þjóðinni líði nú eins og hún hafi vaknað af svefni og horfi á framtíðina af merkilegri norrænni bjartsýni. Hann hefur eftir konu, sem hann hitti á bar:  „Allir þessir peningar og allir þessir hlutir voru afar óíslendingslegir. Þörfin, neyslan, græðgin og metnaðargirndin, ömurleg öfundsýkin, það er ekki Ísland. Það hefur þungu fargi verið létt af okkur, nú þegar peningarnir og allar þarfirnar eru horfnar á braut. Við getum snúið okkur aftur að því að vera Íslendingar."

Gill segir síðan, að Íslendingar geri nú upp við þetta undarlega tímabil. „Þeir munu spjara sig. Þetta er þjóðin, sem stofnaði fyrsta lýðræðislega þingið, Alþingi, þjóðin sem barðist við breska sjóherinn til að koma á fyrsta sjálfbæra sjávarútveginum á norðurhveli jarðar, þjóðin sem eignaðist þrjár ungfrúr heim og eitt Nóbelsskáld - og vann síðan silfur í handbolta. Menn eru metnir eftir því hvernig þeir bregðast við óheppni, ekki eftir því hvernig menn sóa heppni," segir Gill. 

Grein Sunday Times

mbl.is

Bloggað um fréttina