Segja blaðamann í herferð gegn DV

Ritstjórar DV, feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, segja Jón Bjarka Magnússon, fyrrverandi starfsmann sinn, í herferð gegn DV. Ritstjórarnir segja að áður hafi þurft að stoppa fréttir frá viðkomandi blaðamanni. Þá sjá ritstjórar DV ástæðu til að biðja lögregluna afsökunar á framgöngu blaðamannsins fyrrverandi á vettvangi mótmæla á dögunum.

Ritstjórar DV sendu síðdegis frá sér yfirlýsingu vegna fullyrðinga Jóns Bjarka Magnússonar, fyrrverandi blaðamanns DV um að stórir aðilar úti í bæ hefðu stöðvað birtingu fréttar sem hann vann að um Sigurjón Árnason, bankastjóra Landsbankans. Fyrr í dag sendu blaðamenn frá sér yfirlýsingu  og lýstu yfir fullkomnu sjálfstæði ritstjórnar DV.

Í yfirlýsingu ritstjóranna segir m.a. að frétt blaðamannsins fyrrverandi hafi litlu bætt við það sem áður hafi komið fram á Eyjunni um veru Sigurjóns Árnasonar í Landsbankanum. Þá hafi blaðamaðurinn ekki leitað staðfestingar Landsbankans á því að það sem Sigurjón sagði hafi verið satt og rétt. Blaðamaðurinn hafi sérstaklega verið beðinn um að bæta fréttina með nýjum upplýsingum og útbúa hana til birtingar í DV en því hafi hann hafnað á grundvelli þess að hann vildi sjálfur stýra framsetningu hennar.

„Jón Bjarki hefur starfað sem blaðamaður á DV í fimm mánuði. Hann virðist misskilja hlutverk sitt og starf með þeim hætti að það sé á hans valdi að birta hvað sem er, óháð því hvort hægt sé að staðfesta fréttina.  Jón Bjarki segir að stórir aðilar hafi stöðvað frétt DV. Það er alrangt og óskiljanlegt hvernig hann hefur öðlast þann skilning. Hann lét þess ekki getið í yfirlýsingu sinni að síðasta þriðjudag var önnur frétt hans stöðvuð. Þar fjallaði hann um mótmælendur en leitaði ekki sjónarmiða þeirra sem sökum voru bornir. Ábendingar bárust einnig um að hann hefði farið offari gegn lögreglu á vettvangi mótmæla og ekki virt mörk blaðamennsku. Lögreglan er hér með beðin afsökunar á framgöngu hans og skrifum sem birtust. Fyrir tveimur vikum var honum falið að skrifa nærmynd um Jón Ásgeir Jóhannesson. Hann sinnti því í engu,“ segja ritstjórar DV í yfirlýsingu sinni.
 
Þar segir ennfremur að hótanir eða ábendingar komi ekki í veg fyrir birtingu frétta í DV. Aftur á móti sé hver ábending vel þegin og farið í saumana á henni. Jón Bjarki hafi ráðist gegn eigin blaði með tilhæfulausum ásökunum sem beri vott um afleita blaðamennsku. Hann hafi haft í hótunum við ritstjóra til að fá að birta óstaðfestar ásakanir sínar eða fara fram með þær sjálfur að öðrum kosti.

mbl.is

Bloggað um fréttina