Upptaka af útskýringum ritstjóra DV

Reynir Traustason, ritstjóri DV.
Reynir Traustason, ritstjóri DV. mbl.is/Árni Sæberg

Reynir Traustason, ritstjóri DV, sagði beinum orðum við fyrrum blaðamann að frétt um ráðgjafafyrirtæki Sigurjón Þ. Árnasona, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, yrði ekki birt vegna hótana frá mönnum sem hefðu framtíð blaðsins á valdi sínu. Þetta mátti heyra á upptöku sem spiluð var í Kastljósi í kvöld.

Á upptökunni má heyra einkasamtal Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, og Jóns Bjarka Magnússonar, fyrrverandi starfsmanns blaðsins, þar sem sá fyrrnefndi útskýrir hvers vegna frétt þess síðarnefnda verði ekki birt í blaðinu. Segir Reynir í upptökunni að stórir aðilar úti í bæ hafi stöðvað birtingu fréttarinnar á krafti fjármagns. „Það eru ótal fréttir sem maður birtir ekki, af ýmsum ástæðum [...] þetta var nauðungaraðgerð.“

Vísaði hann m.a. í að Björgólfur Guðmundsson væri eigandi prentsmiðjunnar sem prentaði DV og að félagið væri að skipta um eigendur og það væri allt að fara í háaloft. Um líf og dauða blaðsins væri að tefla yrði fréttin birt og ritstjórnin hafi þurft að vega og meta hvort taka ætti slaginn. „Það eru svo margir áhrifavaldar á líf okkar, eins og Björgólfur Guðmundsson, með annars vegar veð í bréfunum og hinsvegar prentun á blaðinu og meðan það er eitthvað lífsmark á honum þá mun hann reyna að drepa okkur.“ Reynir tekur það jafnframt fram að þetta sé bara þeirra á milli og Jón megi alls ekki fara með þetta lengra.

Á máli Reynis í upptökunni mátti ráða að maður væri á barmi taugaáfalls vegna málsins. Reynir Traustason afþakkaði boð Kastljós um að mæta í þáttinn. Í yfirlýsingu frá honum fyrr í dag segir hinsvegar að það sé „alrangt og óskiljanlegt hvernig [Jón Bjarki] hefur getað öðlast þann skilning“ að utanaðkomandi aðilar hafi stöðvað fréttina. Á upptökunni má hinsvegar heyra Reyni skýrt og skilmerkilega halda gefa blaðamanninum nákvæmlega þær skýringar fyrir því að fréttin verði ekki birt. „Þarna eru bara öfl sem munu stúta okkur.“

Útskrift af upptökunni er að finna hér

mbl.is

Bloggað um fréttina