Þorgerður Katrín fær kartöflu

Þorgerður tók Pottaskefli vel
Þorgerður tók Pottaskefli vel

Pottaskefill heimsótti Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í Alþingishúsið seinni partinn í dag og afhenti henni kartöflu í skóinn. Kartöfluna fær Þorgerður, líkt og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, „fyrir að vera ekki löngu búin að segja af sér, heldur þrjóskast hún við og leiðir vilja þjóðarinnar hjá sér,“ segir í tilkynningu frá þeim sem að gjörningnum standa.

Þá segir að Pottaskefill hafi skammað Þorgerði í bak og fyrir, sérstaklega fyrir að vilja leggja niður alla forfallakennslu í framhaldsskólum og skera niður rannsóknarframlag til háskólanna og að lokum fyrir að vilja láta ungt fólk niður í sextán ára aldur borga nefskatt til ríkisstjórnarinnar.

Áður hafa Össur Skarphéðinsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Jóhanna Sigurðardóttir fengið kartöflu frá jólasveinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina