Aldrei aftur mun óttinn stýra fréttaflutningi

Reynir Traustason.
Reynir Traustason.

„Almenningur og blaðamenn DV eru beðnir afsökunar á því að fréttin birtist ekki, jafnvel þótt það hefði kostað blaðið lífsneistann. Jafnframt er ljóst að aldrei aftur mun óttinn við afkomuna stýra því hvenær fréttir birtast. Fréttin um Sigurjón er sú lexía sem dugir,“ segir Reynir Traustason, ritstjóri DV í leiðara blaðsins í dag. Reynir varð uppvís að því að láta undan þrýstingi og birti ekki frétt um Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans.

Fréttin snerist um að Sigurjón hefði komið á fót ráðgjafafyrirtæki í húsnæði Landsbankans og vonaðist í framhaldi eftir verkefnum frá bankanum.

Í upptöku af samtali Jóns Bjarka Magnússonar, fyrrverandi blaðamanns á DV og Reynis Traustasonar, sem spiluð var í Kastljósi í fyrravöld, segir Reynir beinum orðum við Jón Bjarka að fréttin um Sigurjón verði ekki birt vegna hótana frá mönnum sem hafi framtíð blaðsins á valdi sínu. Það sé spurning um líf eða dauða blaðsins að umrædd frétt verði ekki birt. Jón Bjarki sætti sig ekki við það og sagði upp. Hann birti jafnframt fréttina á vefritinu Nei og upptakan af samtali hans við ritstjórann var spiluð í Kastljósi.

Ritstjórar DV reyndu að klóra yfir málið og gera blaðamanninn tortryggilegan. Starfsmenn funduðu um málið í gær, með og án ritstjóranna og var mikill kurr meðal starfsmanna. Einn blaðamaður sagði upp störfum og fleiri íhuga stöðu sína.

Reynir Traustason sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann harmar að fyrstu viðbrögð hans hafi verið ónákvæm, enda hafi hann ekki munað samtal sitt við starfsmanninn frá orði til orðs.

„Ég bið samstarfsmenn mína og alla hlutaðeigandi afsökunar en tel að sú yfirsjón sé ekki af þeirri stærðargráðu að réttlæti uppsögn af minni hálfu. Raunar hefur stjórn og framkvæmdastjórn Birtíngs lýst því yfir við mig að ég njóti fulls trausts til áframhaldandi starfa sem ritstjóri DV,“ segir Reynir í yfirlýsingunni í gær.

Í leiðara DV í dag biður Reynir svo blaðamenn DV og almenning afsökunar á því að fréttin birtist ekki.

Starfsmenn DV munu þinga í dag um málið.

Leiðari DV í dag

mbl.is