Tryggvi hættur hjá Landsbankanum

Tryggvi Jónsson.
Tryggvi Jónsson. mbl.is/ÞÖK

Tryggvi Jónsson hefur í dag sagt upp störfum hjá Landsbankanum (NBI) og hefur þegar látið af störfum hjá bankanum. Segir í yfirlýsingu frá Tryggva að ástæðuna megi rekja til þess ástands sem skapast hefur í kringum störf hans þar og vonast hann til þess að uppsögnin megi verða til að þess að Landsbankinn fái þann starfsfrið sem hann á skilið.

„Umræðan um mig og starf mitt hjá bankanum hefur að mínu mati farið langt yfir öll velsæmismörk og hafa síðustu vikur verið mér og ekki síður fjölskyldu minni, afar erfiðar.  Ég get setið undir ýmsu en þegar mótmæli af þeirri tegund sem sést hafa síðustu daga eru farin að bitna á fjölskyldu minni segi ég hingað og ekki lengra.

Ég vil þakka öllu starfsfólki Landsbankans fyrir gott samstarf, stuðning og góða viðkynningu og vona  að því farnist vel í framtíðinni," að því er segir í yfirlýsingu frá Tryggva.

Tryggvi hóf störf við bankann 3. desember 2007, fyrst til að sinna tilteknum verkefnum en síðan sem starfsmaður bankans. Þetta var ríflega fimm árum eftir að Baugsmálið hófst og um hálfu ári áður en dómur var kveðinn upp í málinu. Hann var því með hreina sakaskrá þegar hann byrjaði hjá bankanum en það breyttist í júní á þessu ári þegar dómur var loks kveðinn upp.

Í viðtali við Morgunblaðið þann 7. nóvember sl. sagði Gunnar Viðar, forstöðumaður lögfræðisviðs Landsbankans, að Tryggvi kæmi hvergi nálægt málum sem tengjast Baugi, 365, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni eða félögum sem tengjast honum. Deildin sem hann starfaði í sinnti ekki stærri málum og málefni Baugs teldust ótvírætt til stærri mála.

Í viðtali við mbl.is fyrr í vikunni sagði Tryggvi að ekki séu bein tengsl á milli sín og Baugs hvað varðar þau fyrirtæki sem hann hafi annaðhvort átt hlut í eða gegnt stjórnarformennsku í undanfarin ár. Fyrirtækin sem um ræði séu Domino's, Humac og Leonard.  Hann hafnaði því alfarið að hann tengist Baugi á nokkurn hátt í dag. Þá vísar hann þeim ásökunum Jóns Geralds Sullenbergers á bug, sem m.a. komu fram í þættinum Silfri Egils í Sjónvarpinu á sunnudag, að hann hafi verið arkitektinn að ýmsum viðskiptum Baugs sem hafi átt þátt í bankahruninu.

Meðal þeirra sem tóku þátt í mótmælum í Landsbankanum í gær var Jón Gerald. Hann sagði í viðtali við Sjónvarp mbl að hann styddi þessi mótmæli hundrað prósent. Einhverjir mótmælendur héldu á vegaskiltinu Hætta framundan, með nafni Tryggva Jónssonar undir. Jón Gerald segist vilja að Tryggvi Jónsson hætti í bankanum en hann sé að stórskaða ímynd hans og starfsfólkið eigi rétt á því að fá vinnufrið.

Jón Gerald Sullenberger við mótmælaskilti gegn Tryggva Jónssyni í gær.
Jón Gerald Sullenberger við mótmælaskilti gegn Tryggva Jónssyni í gær. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert