„Dapurleg jólagjöf“

Jóhannes Jónsson.
Jóhannes Jónsson. mbl.is/Skapti

„Þetta er frekar dapurleg jólagjöf ofan í það sem kom í gær,“ segir Jóhannes Jónsson, kaupmaður í Bónus, og vísar þar til þess að Ríkislögreglustjóri gaf í fyrradag út ákæru á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Kristínu systur hans, Tryggva Jónssyni, Baugi og Gaumi fyrir meint skattalagabrot á árunum 1998-2002.


Aðspurður segir Jóhannes ljóst að úrskurði samkeppniseftirlitsins verði áfrýjað til úrskurðarnefndar samkeppnismála og látið á málið reyna fyrir dómstólum þurfi þess við. „Þetta er há upphæð og hátt reitt til höggs,“ segir Jóhannes og ítrekar að menn muni ekki borga svona háa sekt þegjandi og hljóðalaust. Spurður hvort búast megi við því að sektin bitni á neytendum standi niðurstaða samkeppniseftirlitsins frá því í dag svarar Jóhannes því játandi, en ítrekar að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun þess efnis. „En allur kostnaður sem fellur á fyrirtæki hann fer náttúrlega út í verðlagið, því við verðum að reka fyrirtækið réttu megin við strikið.“


Spurður hvort hann sé sammála því að undirboð séu ekki til hagsmunar fyrir neytendur tekur Jóhannes undir það. „En við náttúrlega verjum okkar vígi á eðlilegan hátt. Við höfum aldrei verið fyrstir til þess að fara niður fyrir innkaupsverð með nokkra vöru, það hafa alltaf aðrir orðið fyrri til. [...]
Við blásum ekki í þá herlúðra að fara niður fyrir innkaupsverð fyrr en einhverjir aðrir hafa rutt veginn þar,“ segir Jóhannes og bætir við: „Við erum óánægð með þessa niðurstöðu [samkeppniseftirlitsins] vegna þess að fyrirtækið okkar hefur gert út á það sl. 20 ár að vera ódýrastir á markaði og okkur hefur tekist það hingað til og við höfum aldrei fengið neina athugasemd frá samkeppniseftirlitinu um það að við værum að aðhafast eitthvað sem væri ekki rétt.“

mbl.is