Kalla á heildarendurskoðun á samkeppnisumhverfinu

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Kristinn Ingvarsson

Ármann Kr. Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðismanna, lagði í gær fram þingsályktunartillaga þess efnis að ríkisstjórninni verði falin heildarendurskoðun á samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja.

Í greinargerð sem fylgir með tillögunni kemur fram að mikilvægt sé að hefja strax endurreisn á íslensku viðskipta- og efnahagslífi í kjölfar bankahrunsins. Til að það sé mögulegt á sem stystum tíma verði að ríkja öflug samkeppni hérlendis. Bent er á að því miður sé mikil hætta á að ríkjandi ástand ýti undir samþjöppun og hún verði enn meiri en verið hafi, en slíkt geti dregið úr hraða nauðsynlegrar endurreisnar.

Rifjar er upp að í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008, „Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi“ sé greint frá reynslu annarra ríkja af þýðingu samkeppni í efnahagskreppum og hvaða lærdóm megi draga af henni. Sú reynsla og rannsóknir í hagfræði sýni að aðgerðir til þess að viðhalda og efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins.

„Nú þegar við stöndum frammi fyrir miklum efnahagserfiðleikum í kjölfar bankahrunsins hefur aldrei verið mikilvægara að horfa til framtíðar og undirbúa næstu skref til viðreisnar íslensku efnahagslífi. Ljóst er að samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja er gallað. Hringamyndun og krosseignarhald hefur fengið að þrífast hér á landi, fákeppni hefur blómstrað og fyrirtæki hafa misbeitt markaðsráðandi stöðu sinni um áraraðir. Þetta sést glöggt þegar horft er til smásöluverslunar, matvöruiðnaðarins, fjölmiðla- og fjarskiptamarkaðarins, samgöngufyrirtækja og lyfjamarkaðarins svo eitthvað sé nefnt,“ segir m.a. í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert