Fá þrefalt meira endurgreitt

Líkt og venjulega á Þorláksmessu röltu margir niður Laugaveginn í …
Líkt og venjulega á Þorláksmessu röltu margir niður Laugaveginn í gærkvöldi mbl.is/G. Rúnar

Allt að þreföldun, eða 200% aukning, hefur orðið á beiðnum útlendinga um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varningi hér á landi í desember sé miðað við desember árið 2007.

Þetta staðfestir Helgi H. Jónsson, framkvæmdastjóri Global Refund, sem sér um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Hann tekur þó fram að ýmsar breytur geti haft áhrif á tölurnar, t.d. tímabilið, en 200% aukningin miðast við tölurnar fram til 18. desember. „Hafa þarf í huga að tímabilið er 30 dagar og þá getur haft áhrif hvenær uppgjör þau, sem koma frá endurgreiðslustöðum, eru gerð,“ segir Helgi. „Þetta getur þannig verið spurning um daga til eða frá.“

28% samdráttur í kortasölu

„Það hefur orðið hátt í 28% raunsamdráttur á innlendri greiðslukortaveltu hjá okkur frá því í fyrra eða um 10% samdráttur að nafnvirði. Mynstrið er mjög svipað og því ekki um það að ræða að fólk sé seinna fyrir í innkaupunum,“ segir Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar hf., sem hefur umboð fyrir m.a. Mastercard og American Express á Íslandi.

Mikil aukning var í notkun greiðslukorta í sama mánuði í fyrra en þá jókst kortanotkun um tæp 18% frá 2006. Haukur segir það eflaust spila inn í minnkandi kortanotkun að tæpir 13 milljarðar voru teknir út í reiðufé úr bönkum landsins í október.

Eyða minna erlendis

„Umskiptin sem urðu í haust á kortanotkun erlendis hafa haldist áfram. Íslendingar eyða nú um einum þriðja af því sem þeir eyddu erlendis á föstu gengi,“ segir Haukur. Hann segir þó að útlendingar hafi eytt meiru hér á landi og því hafi viðskiptajöfnuður korta lagast, skekkjan sé um einn fjórði af því sem hún var í fyrra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert