Sala á orku hefjist 2011

Ráðast þarf í annan áfanga Hellisheiðavirkjunar vegna Helguvíkur.
Ráðast þarf í annan áfanga Hellisheiðavirkjunar vegna Helguvíkur. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Orkuveita Reykjavíkur samþykkti í dag að nýjan samning við Norðurál um sölu á orku til fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Samningurinn kveður á um sölu á 175 megavöttum rafmagns til fyrsta og annars áfanga álversins.

Að öllu óbreyttu hefði fyrri samningur fyrirtækjanna tveggja fallið úr gildi nú um áramótin en að sögn Hjörleifs B. Kvaran, forstjóra OR, voru ýmsir fyrirvarar í fyrri samningi. „Í gamla samningnum var skuldbinding okkar um að selja 100 megavött og vilyrði fyrir 75 megavöttum til viðbótar en nú er skuldbindingin aukin um þessi 75 megavött. En í öllum meginatriðum er samningurinn óbreyttur."

Líkt og í fyrri samningi ríkir leynd yfir orkuverðinu. Hjörleifur segir ekki hafa komið til greina að aflétta þessari leynd. „Við erum fyrirtæki í samkeppnisrekstri og almennt er verð ekki gefið upp þegar verið er að semja við fyrirtæki. Þessi ákvæði eru óbreytt frá fyrri samningi." Hann staðfestir þó að orkuverðið sé tengt álverði hverju sinni.

Gert er ráð fyrir að byrjað verði að afhenda orkuna í ársbyrjun 2011 að hans sögn. „Orkan er úr tveimur virkjunum sem við eigum eftir að reisa, annars vegar úr stækkun á Hellisheiðinni og hins vegar úr Hverahlíðarvirkjun. Við förum ekki af stað með þær framkvæmdir fyrr en við erum búnir að tryggja söluna á rafmagninu." Með samningnum í dag er salan tryggð að hans sögn. „Það er komin skuldbinding af hálfu Norðuráls um að kaupa alla þá orku sem við komum til með að framleiða," segir Hjörleifur. „Og við erum búnir að tryggja að þeir munu kaupa af okkur 90 megavött af þessum 175 hvort sem Helguvík verður byggð eða ekki."

Á fundinum í dag vék fulltrúi Vinstri grænna, Svandís Svavarsdóttir af fundi þegar fjallað var um orkuverðið og bókaði að hún teldi almenning afdráttarlaust eiga „lögvarða kröfu á því að fá verðið uppgefið þar sem í þeim upplýsingum liggja miklir hagsmunir almennings. Jafnframt mun fulltrúinn áfram berjast fyrir því að raforkuverð til stóriðju verði gert opinbert."

mbl.is

Bloggað um fréttina