Annmarkar á skipun dómara

Annmarkar voru á ákvörðun Árni Mathiesen um að skipa Þorstein ...
Annmarkar voru á ákvörðun Árni Mathiesen um að skipa Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara, að mati umboðsmanns Alþingis mbl.is/Ómar

Annmarkar voru á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð Árna Mathiesen, setts dómsmálaráðherra, þegar hann skipaði Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra í desember í fyrra, að mati umboðsmanns Alþingis. Þorsteinn var tekinn fram yfir þrjá aðra umsækjendur, sem dómnefnd mat hæfari til verksins.

Þorsteinn hafði áður gengt starfi aðstoðarmanns Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem vék sæti við skipunina af þeim sökum. Í áliti umboðsmanns er vísað til þess rökstuðnings Árna að umsögn dómnefndarinnar hefði verið ógagnsæ, lítt rökstudd og innra ósamræmi hafi verið í mati hennar á starfsreynslu umsækjenda. Því hefðu verið vandkvæði á því að reisa ákvörðun um skipun í embættið alfarið á umsögninni. Segir umboðsmaður að ráðherra hefði átt að óska eftir að dómnefndin fjallaði að nýju um málið og gæfi honum nýja umsögn þar sem bætt væri úr þessum annmörkum áður en hann tók ákvörðun í málinu. Einnig hefði verið rétt að óska eftir að nefndin skýrði frekar hvað hefði ráðið mati hennar á starfsreynslu eins umsækjandans, sem aðstoðarmanns dóms- og kirkjumálaráðherra, í samanburði við mat á annarri starfsreynslu.

Umboðsmaður tekur fram að þótt umsögn dómnefndarinnar sé ekki að formi til bindandi þegar kemur að ákvörðun ráðherra kunni hún að setja honum ákveðnar skorður og leggja ákveðnar skyldur á hann um nauðsynlega rannsókn málsins, áformi hann að skipa í embætti héraðsdómara í ósamræmi við mat dómnefndarinnar á hæfni umsækjenda.

Er niðurstaða umboðsmanns sú að ekki hafi verið lagður fullnægjandi grundvöllur að ákvörðun Árna um að skipa Þorstein í embætti héraðsdómara. Umboðsmaður fær ekki séð að ráðherra hafi haft forsendur til að fullyrða að hann hafi í reynd valið hæfasta umsækjandann.

Þá gerir umboðsmaður athugasemdir við að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, hafi ekki vikið fyrr sæti við meðferð málsins, þar sem fyrrverandi aðstoðarmaður hans hafi verið meðal umsækjenda.

Álit umboðsmanns Alþingis

mbl.is

Bloggað um fréttina