„Geðdeildarþjónusta færð mörg ár aftur í tímann“

Sjúkrahúsið á Akureyri
Sjúkrahúsið á Akureyri mbl.is/skapti

Dagdeild geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri (FSA) verður lögð niður í núverandi mynd frá 1. febrúar næstkomandi í kjölfar þess að geðdeild stofnunarinnar var gert að skera niður kostnað um 17,5 milljónir króna á næsta ári. Starfsfólki var afhent uppsagnarbréf í dag og er forstöðumaður dagdeildarinnar afar óhress með ákvörðunina; hann segir verið að færa geðdeildarþjónustu mörg ár aftur í tímann. Forstöðulæknir geðdeildar FSA er heldur ekki sáttur en segist tilneyddur að grípa til ráðstafana vegna kröfu um niðurskurð og þetta hafi að hans mati verið eini kosturinn. Stöðugildi á dagdeild eru sjö og 35-40 manns hafa sótt þjónustu þangað.

Andstætt tilmælum landlæknis

Yfirlæknir göngudeildar geðdeildar FSA lýsti í Morgunblaðinu á aðfangadag miklum áhyggjum vegna hugmynda í þessa veru, vegna þess að óhjákvæmilega yrði að draga úr þjónustu. Sigmundur Sigfússon, forstöðulæknir geðdeildar, er algjörlega sama sinnis. „Mér er dálítið þungt í sinni að þurfi að leggja niður meðferðarstarf sem margir hafa gagn af og margir bíða eftir. Ég taldi að það ætti að fara að tilmælum landlæknis og hlífa geðsviðum sjúkrahúsanna við sparnaði vegna þess að álagið á geðdeildirnar verður meira á næsta ári vegna kreppunnar, en ég verð að framfylgja þessari sparnaðarkröfu og forgangsröðunin er sú að halda verði bráðaþjónustunni óbreyttri,“ sagði Sigmundur við Morgunblaðið. 

Forstöðulæknir sér eftir deildinni

Uppsagnirnar taka gildi 1. febrúar en ný sameinuð deild tekur formlega til starfa í nýju húsnæði 1. október. Þangað til verður göngudeildin á sama stað innan veggja FSA.

Sigmundur segist sjá mjög eftir dagdeildinni, sem byggð hefur verið upp á um það bil einum og hálfum áratug. „En ég vonast til þess að hægt verði að byggja hana upp aftur á nýjum stað og verð að reyna það með mínu samstarfsfólki. En þá þarf að byrja upp á nýtt.” 

Þeir sem fyrst og fremst hafa sótt þjónustu á dagdeild er fólk sem lengi hefur átt við geðræna erfiðleika að stríða og þarf fjölþættari og lengri endurhæfingu en aðrir. Það fólk fær ekki sambærilega þjónustu og áður eftir 1. febrúar en reynt verður að sinna því á göngudeild, að sögn Sigmundar.

Þjónustan færð mörg ár aftur í tímann

Kristján Jósteinsson, forstöðumaður dagdeildarinnar, segir að stöðug þróun hafi átt sér stað á deildinni. „Á síðustu þremur árum hefur földi sjúklinga tvöfaldast vegna nýrrar meðferðarnálgunar og það fólk sem verið hefur hjá okkur hefur náð mjög góðum árangri; nánast ekkert er um endurinnlagnir. Þess vegna finnst mér það sláandi að deildin sé lögð niður.“ Reiknað var með að sjúklingar á dagdeild yrðu um 60 á næsta ári, að sögn Kristjáns og segir hann að þar á bæ hafi verið til tillögur um 6,5% niðurskurð – eins og krafan var um – en samt sem áður hefði verið hægt að fjölga sjúklingum. 

„Auðlegð deildarinnar er fyrst og fremst starfsfólkið sem þar vinnur en sú þekking og reynsla sem þar hefur skapast glatast þegar deildin er lögð niður. Það er ekkert í sjónmáli sem tekur við af þeirri þjónustu sem við höfum veitt og því er verið að færa geðdeildarþjónustu mörg ár aftur í tímann. Dagdeildarþjónusta hefur verið helsti vaxtarbroddur í þjónustu geðdeildarinnar síðustu ár, eins og verið hefur á Norðurlöndum og Bandaríkjunum,“ segir Kristján. „Það sparast ekkert með þessum aðgerðum. Álagið mun aukast á bráðamáttöku spítalans og í heilsugæslu og félagsþjónustu bæjarins,“ segir Kristján, „og kostnaður þannig aukast annars staðar vegna sparnaðarins hér.“  

Sigmundur Sigfússon forstöðulæknir geðdeildar FSA.
Sigmundur Sigfússon forstöðulæknir geðdeildar FSA.
Kristján Jósteinsson forstöðumaður dagdeildar FSA.
Kristján Jósteinsson forstöðumaður dagdeildar FSA. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert