Byssumaðurinn fundinn

mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann nú fyrir stundu ungan mann sem leitað hefur verið síðan á níunda tímanum í kvöld. Lögreglu barst tilkynning í kvöld um vopnaðan mann í Bústaðahverfi og hafði lögregla mikinn viðbúnað. Mannsins var leitað víða í austurborginni og fannst hann í Breiðholti. Maðurinn var með skotvopn í fórum sínum þegar hann fannst.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem barst eftir miðnættið segir að lögreglunni hafi borist tilkynning um að ungur maður vopnaður skotvopni væri staddur í Breiðagerði, í Reykjavík. Allt tiltækt lögreglulið frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit Ríkislögreglustjóra hafi leitað mannsins.

Þá segir að maðurinn hafi gefið sig fram klukkan 23:43 í Breiðholti. Hann hafi þá verið með skotvopnið en afhent lögreglu það mótþróalaust.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu er maðurinn vistaður á viðeigandi stofnun á meðan málið er rannsakað.

mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert