Harma umfjöllun um Cintamani

Marðarhundur. Feldur hans er vinsæl framleiðsluvara í Kína og víðar.
Marðarhundur. Feldur hans er vinsæl framleiðsluvara í Kína og víðar.

„Við hörmum umfjöllun um Cintamani í Morgunblaðinu í morgun og órökstuddar alhæfingar sem þar koma fram. Við hjá Cintamani leggjum ríka áherslu á að velja aðeins bestu framleiðendur og efni fyrir vörur okkar. Það er okkur hjartans mál að í öllu framleiðsluferlinu sé vel farið með dýr og starfsfólk,“ segir í yfirlýsingu frá Cintamani. Tilefnið er frétt í Morgunblaðinu þar sem dýralæknir gagnrýnir fyrritækið fyrir notkun felda frá Kína í flíkur. Dýralæknirinn segir meðferð dýra í Kína án laga og mjög slæma.

Í frétt í Morgunblaðinu segir Hanna María Arnórsdóttir, dýralæknir, frá því að hún hafi viljað skila úlpu frá íslenska fyrritækinu Cintamani, sem hún fékk í jólagjöf. Í hettu úlpunnar hafi verið skinn af marðarhundi, auk þess sem úlpan hafi verið saumuð í Kína. Engin dýraverndarlög séu í Kína og engin lög séu til í Kína um meðferð dýra sem notuð eru til iðnaðar.

Cintamani sendi frá sér yfirlýsingu vegna þessa þar sem umfjöllunin er hörmuð.

„Við hjá Cintamani leggjum ríka áherslu á að velja aðeins bestu framleiðendur og efni fyrir vörur okkar. Það er okkur hjartans mál að í öllu framleiðsluferlinu sé vel farið með dýr og starfsfólk. Til þess að tryggja þetta, heimsækjum við verksmiðjur okkar reglulega og göngum úr skugga um að þar starfi ekki fólk yngra en 18 ára og að allur aðbúnaður starfsfólks og framleiðsluferlar séu til fyrirmyndar. Hvað varðar loðkraga á einstökum flíkum, höfum við gert skýra kröfu til viðkomandi framleiðanda að dýrin séu meðhöndluð á mannúðlegan hátt og höfum fengið staðfestingu á að svo sé,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir ennfremur að forsvarsmenn fyrirtækisins geri sér grein fyrir þeirri gagnrýni sem beinst hafi að kínverskum stjórnvöldum fyrir að uppfylla ekki alþjóðlegar kröfur, m.a. á sviði dýraverndunar og mannréttinda. Hins vegar hafi margt verið að færast til betri vegar, meðal annars með auknum viðskiptum við alþjóðleg fyrirtæki sem geri kröfu um að alþjóðlegir staðlar séu uppfylltir, en meira en helmingur af öllum loðskinnum og leðri sem seld eru í heiminum eru framleidd í Kína.

„Því er ekki  hægt að alhæfa um slæma meðferð í allri loðdýrarækt eða brot á mannréttindum í öllum verksmiðjum í Kína. Við höfum staðfest að fagleg vinnubrögð eru viðhöfð hjá þeim framleiðendum sem við skiptum við,“ segir í lok yfirlýsingar frá Cintamani.

Hanna María Arnórsdóttir, dýralæknir.
Hanna María Arnórsdóttir, dýralæknir.
mbl.is

Bloggað um fréttina