Rekja eigendaflækjur

Ríkisskattstjóri er að athuga hverjir séu raunverulegir eigendur um 300 …
Ríkisskattstjóri er að athuga hverjir séu raunverulegir eigendur um 300 stærstu hlutafélaga hér á landi. mbl.is/Golli

Ríkisskattstjóri er að athuga hverjir séu raunverulegir eigendur um 300 stærstu hlutafélaga hér á landi. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri vonast til þess að athuguninni ljúki undir lok þessa mánaðar en rúmur mánuður er síðan hún hófst. Athugunin miðar m.a. að því að upplýsa hve stór hluti af eignarhaldi íslenskra hlutafélaga er hér innanlands. Einnig að komast að því hverjir eiga þá eignarhluta sem skráðir eru á útlensk félög og hve stór hluti þeirra er í raun og veru í eigu Íslendinga með einum eða öðrum hætti.

Skúli segir það hafa færst í vöxt að útlend félög séu skráð eigendur í íslenskum félögum. Svo virðist sem að þróun í þessa átt hafi byrjað svo um munaði fyrir um áratug. Það getur reynst flókið að rekja halarófu þar sem eitt félag er í eigu annars og svo koll af kolli. Þessi félög eru gjarnan skráð til heimilis í ýmsum skattaskjólum heimsins og stundum er komið að lokuðum dyrum.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að flókið eignarhald félaga geti skapað vandkvæði við eftirlit. Það dragi úr gegnsæi og flæki stjórnsýslulega meðferð mála. Samkeppniseftirlitið, líkt og aðrar eftirlitsstofnanir, hafi þurft í ýmsum málum að grafast fyrir um eignarhald félaga. Í flestum tilvikum hafi stofnunin komist að niðurstöðu um raunverulegt eignarhald, en þetta hafi krafist fyrirspurna og eftirgrennslana. 

Í hnotskurn
» Við skráningu félags í Fyrirtækjaskrá, sem er til húsa hjá Ríkisskattstjóra, þarf að gera grein fyrir eignarhaldi félagsins.
» Málið flækist oft þegar útlent félag, gjarnan skráð í skattaskjóli, er hluthafi.
» Við nánari eftirgrennslan kemur stundum í ljós að það er í eigu annars félags og svo koll af kolli.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert