Ríkið styður málshöfðun

Höfuðstöðvar Singer & Friedlander.
Höfuðstöðvar Singer & Friedlander.

Skilanefnd Kaupþings hefur afráðið að höfða mál gegn breskum stjórnvöldum vegna greiðslustöðvunar, sem Kaupthing Singer & Friedlander, dótturfélag Kaupþings í Lundúnum, var sett í.  Nýtur skilanefndin fulls stuðnings ríkisstjórnarinnar í þessu.

Ríkisstjórnin mun einnig styðja við bakið á skilanefnd Landsbankans í hugsanlegum málaferlum á hennar vegum. Skilanefndin mun hins vegar ekki höfða mál til að fá hnekkt hryðjuverkalögunum, sem beitt var gegn eignum Landsbankans í Bretlandi.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hittu fulltrúa skilanefndar Kaupþing í dag og höfðu áður átt fund með skilanefnd Landsbankans.

Geir sagðist nú síðdegis telja ólíklegt að íslensk stjórnvöld fari í mál við bresk stjórnvöld en verið væri að skoða hvort leitað ætti til Alþjóðadómstólsins í Haag. Hann sagði það einnig mikinn misskilning, að ekkert hefði verið unnið í þessu máli af hálfu skilanefnda bankanna tveggja, hvert á móti hefði verið unnið gríðarlegt starf.

Hann sagði, að fjórar breskar lögmannsstofur hefðu komið að málinu fyrir hönd Kaupþings og líklega muni ein reka málið fyrir breskum dómstólum. Fresturinn rennur út klukkan 16 á miðvikudag.   Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu, að málshöfðun Landsbankans lúti ekki að öllu leyti sömu tímafrestum og málshöfðun skilanefndar Kaupþings.  

Fjallað verður um málið í ríkisstjórn í fyrramálið.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, á blaðamannafundi nú síðdegis.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, á blaðamannafundi nú síðdegis. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert