Eins og maður hafi verið skotinn

Starfsfólk St. Jósefsspítala stóð utan við salinn þar sem heilbrigðisráðherra …
Starfsfólk St. Jósefsspítala stóð utan við salinn þar sem heilbrigðisráðherra kynnti fyrirhugaðar breytingar í dag. mbl.is/Golli

„Það er eins og maður hafi verið skotinn loksins þegar gjörningurinn er kynntur, það er að segja áætlunin um að leggja St. Jósefsspítala niður í heild sinni,“ segir  Sveinn G. Einarsson, yfirlæknir svæfingadeildar spítalans um þá breytingu sem Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra  hefur kynnt en hann ætlar að fela spítalanum hlutverk á sviði öldrunarlækninga og hvíldarinnlagna.

Sérfræðingum og fagfólki sem gert hafa skurðaðgerðir á St. Jósefsspítala verður boðin aðild að því að byggja upp skurðstofurekstur í nýrri aðstöðu á Suðurnesjum. Meltingasjúkdóma- og lyflækningadeild verður tengd starfsemi Landspítalans og reynsla af göngudeildarstarfsemi St. Jósefsspítala þróuð með sérfræðingum þaðan.

Sveinn segir starfsfólkið alveg gáttað á vinnubrögðum ráðherra og vera alveg miður sín. „Starfsfólkið er líka alveg gáttað á þessari leynd sem hvílt hefur yfir þessu. Það sér heldur ekkert hagræði í þessum breytingum. “

Hópur starfsmanna spítalans beið fyrir utan þegar ráðherra fundaði með fréttamönnum og að loknum fundinum bauðst hann til þess að funda með þeim á spítalanum á morgun.

Heilbrigðisráðherra hyggst ná fram hagræðingu í rekstri heilbrigðisstofnana víðsvegar um landið.  Meðal þess sem kynnt hefur verið er yfirtaka Landspítalans á skurðstofurekstri á Selfossi auk þess sem vaktir á skurðstofum á Selfossi og í Keflavík verða lagðar af.

Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Norðurlandi verða sameinaðar í eina undir forystu sjúkrahússins á Akureyri sem verður Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Vesturlandi verða sameinaðar í eina með höfuðstöðvar á Akranesi.

Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði sameinast Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sem hefur höfuðstöðvar á Ísafirði. Auka á frekar samstarf Heilbrigðisstofnunar Austurlands og sjúkrahússins á Akureyri.

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja verður sameinuð Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem jafnframt tekur við umsjón með samningi sem er í gildi milli Heilbrigðisstofnunarinnar á Höfn í Hornafirði og heilbrigðisráðuneytisins.

Í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að breytingarnar hafi verið unnar í samráði við stjórnendur stofnananna sem þær taka til og meginmarkmið þeirra kynnt starfsmönnum viðkomandi stofnana.

Gunnar Kristinn Gunnarsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja, kveðst ekkert vita um hvað sameiningin við Heilbrigðisstofnun Suðurlands felur í sér. „Mér hefur ekki verið greint frá því. Um mögulegan atvinnumissi starfsfólks segir hann: „Það er verið að sameina með sparnað fyrir augum og 75 til 80 prósent útgjalda hér eru launakostnaður. Það segir sitt.“

Í tilkynningunni frá ráðuneytinu segir jafnframt að á næstu dögum verði unnið með stjórnendum stofnananna að útfærslu breytinganna hvað varði tilfærslur verkefna og starfsfólks. Vinnuhópar eigi að skila útfærslu sinni til ráðherra fyrir 19. janúar.

Stefnt er að því að sameiningin taki formlega gildi 1. mars næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert