Jafnrétti er ekki forgangsmál í íslensku samfélagi

Kristín Ástgeirsdóttir.
Kristín Ástgeirsdóttir. mbl.is/Golli

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, vék að kynbundnum launamun í ræðu sinni á Jafnréttisþingi í dag. Einn af sérfræðingum Jafnréttisstofu hefur verið að kanna hvers vegna svo fáir karlar afla sér endurmenntunar og raun ber vitni. „Svarið er einfalt,“ sagði Kristín. „Þeir hafa ekki efni á því. Konur þeirra hafa svo lág laun að þeir hafa ekki efni á að taka sér frí frá vinnu. Launamisrétti kynjanna bitnar líka á körlum.“

Yfirskrift ræðu Kristínar var: Jafnrétti kynjanna - lúxus eða þjóðhagsleg nauðsyn. Kristín sagði að brátt verði haldin stór ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Við undirbúning hennar hafi Norðurlöndin hugað að áhrifum loftslagsbreytinga á kynin hvort um sig. Kristín sagði að í umræðu um loftslagsmál mætti greina flest viðfangsefni sem eru hvað brýnust til að tryggja jafnrétti kynjanna. Karlar stýri nánast allri stefnumótun í umhverfismálum, nýtingu náttúruauðlinda og ráði aðgangi að þeim. „Staðreyndin er sú að það eru konur sem líða í mun ríkara mæli en karlar fyrir náttúruhamfarir og umhverfisbreytingar,“ sagði Kristín. Eins sagði hún að vopnuðum átökum fylgi kynbundið ofbeldi. Konur og börn séu 70% flóttamanna í heiminum. Eins eru þær oftar en karlar fórnarlömb mansals. Mun fleiri konur en karlar farist í jarðskjálftum. Eftir flóðbylgjuna í Asíu um jólin 2004 kom í ljós að miklu fleiri konur en karlar höfðu farist.


Kristín vék að ástandinu hér á landi og spurði hvort við ætluðum að hjakka áfram í sama farinu, hörfa til baka eða nýta þau tækifæri sem framundan eru til að skapa raunverulega nýtt Ísland. Hún benti á að þótt konur væru settar í bankastjórastöður tveggja banka á liðnu hausti hafi karlar verið í nær öllum öðrum æðstu stöðum bankanna. Engu hafi átt að breyta þrátt fyrir áminningar félagsmálaráðherra og Jafnréttisstofu. Síðan hafi komið í ljós ótrúlegt launamisrétti sem þrifist hafði innan bankanna í skjóli launaleyndar.
„Jafnrétti kynjanna er því miður ekki forgangsmál í íslensku samfélagi,“ sagði Kristín. „Meira að segja ráðherrar, þeir sem eiga að ganga á undan með góðu fordæmi, virða ekki lög um jafnrétti kynjanna. Samanber skipan í bankaráð ríkisbankanna þriggja. Aðeins eitt þeirra er skipað í samræmi við 15. grein jafnréttislaga.“ Þar segir að hlutur hvors kyns um sig skuli ekki vera minna en 40%. Kristín sagði það eiga að vera í hverri einustu stjórn en ekki í þeim samanlagt. „Ef við spornum ekki við og gerum jafnrétti og jafna stöðu kynjanna að forgangsmáli er hætt við að allt fari aftur í sama farið á nýja Íslandi,“ sagði Kristín.


Hún rifjaði upp frönsku byltinguna 1789 en þar kom fram fyrsta skipulagða kvennahreyfingin sem krafðist réttinda konum til handa. Kristín sagði að konur hafi þá fengið ýmis réttindi en svo hafi mælirinn orðið fullur. Forystukonurnar hafi verið teknar af lífi og síðan var samþykkt 1795 að hvar sem fleiri en fimm konur kæmu saman undir berum himni væri um ólöglegan útifund að ræða og þær skyldu handteknar. Þessi saga hafi endurtekið sig hvað eftir annað síðan þá.
Hér á landi þarf að grípa til markvissra aðgerða til að jafna hlut karla og kvenna í áhrifastöðum, að mati Kristínar.

„Ég mæli með kvótum,“ sagði Kristín. Hún vísaði þar til kvóta eins og þeirra sem 15. grein jafnréttislaga kveður á um varðandi nefndir, stjórnir og ráð. „Bréf og tilmæli duga skammt og við ætlum ekki að bíða til eilífðar á nýja Íslandi,“ sagði Kristín og uppskar lófatak ráðstefnugesta. „Kvótar snúast ekki um það að koma óhæfum konum til valda, heldur um að brjóta niður aldagamlar hefðir, valdakerfi og ríkjandi kynjakerfi.“


Á þessu ári verða liðin 100 ár frá því að allar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til sveitastjórna á Íslandi. Þetta gerðist ári eftir að listi kvenna vann stórsigur í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík og kom fjórum konum að.
„Hugsum okkur að þær Katrín Skúladóttir Magnússon, Þórunn Jónassen og Bríet Bjarnhéðinsdóttir, konurnar sem voru í þremur efstu sætum kvennalistans árið 1908, hittust í himaríki, þar sem þær eru örugglega allar klæddar peysufötunum sínum, settust saman á ský og horfðu niður til okkar á ísaköldu landi. Ég held að þær myndu spyrja:

„Af hverju eruð þið ekki komin lengra? Skilaði barátta okkar ekki meira en þessu? Hvað varð um arfinn sem við lögðum ykkur í hendur? Til hvers voru öll þessi réttindi ef þau voru ekki nýtt? Af hverju standa ekki konur og karlar hlið við hlið við að byggja upp jafnstöðusamfélagið? Af hverju eru karlar ekki að ræða og skoða stöðu sína eins og karlarnir í Noregi? Og þið góðu konur, ætlið þið að láta karla um að móta nýja Ísland?“ Nei, nú er tækfærið til að skapa, nú er tækifærið til að breyta. Lærum af gömlu konunum sem gripu til sinna ráða og ruddu lýðræði, kvenfrelsi og jöfnuði braut. Við verðum að finna okkar leiðir. Ekki á morgun heldur strax! Jafnrétti kynja þolir enga bið! Börnin eiga það skilið, umhverfið krefst þess, framtíðin kalla á það til þess að íslenskt samfélag lifi af og verði það fyrirmyndarsamfélag sem við skuldum okkur sjálfum og þeim baráttukonum og körlum sem gengu á undan okkur,“ sagði Kristín.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert