Voru í raun án Seðlabanka

Willem Buiter skeggræðir við Tryggva Þór Herbertsson eftir fyrirlesturinn.
Willem Buiter skeggræðir við Tryggva Þór Herbertsson eftir fyrirlesturinn. mbl.is/RAX

Willem H. Buiter, prófessor í evrópskri stjórnmálahagfræði við London School of Economics, sem hélt fyrirlestur í Háskóla Ísland í dag, segir að einkavæðing íslensku bankanna hafi misfarist á þann hátt að engin virk löggjöf hafi verið til staðar til að hefta vöxt þeirra.  Að öðrum kosti hefðu þeir aldrei vaxið í 900% af landsframleiðslu.

Hann segir jafnframt að þó svo hin alþjóðlega lánsfjárkreppa hafi sett íslensku bankakreppuna af stað, hafi það verið algjör tilviljun. Hvað sem er hefði getað komið henni á stað og á endanum hefði það verið eitthvað annað, ef ekki fyrrnefnd lánsfjárkrísa. „Þeir hefðu hlaupið á vegg á endanum,“ sagði Buiter. Vöxtur þeirra var ekki sjálfbær og þeir voru fáránlega stórir í samanburði við íslenska hagkerfið.

Svo stórir reyndar að Seðlabankinn hafi ekki lengur verið lánveitandi til þrautavara fyrir bankakerfið, vegna smæðar hans og skorts á fjárhagslegum styrk. Ísland hafi í raun rekið bankakerfi sem hafði engan lánveitanda til þrautavara um árabil, eftir að bankarnir höfðu náð ákveðinni stærð. Seðlabankinn sé rúinn trausti á erlendum vettvangi og sé alls staðar álitinn „mjög getulaus“.

Hann sagði Evrópusambandið og myntbandalag Evrópu bestu lausnina fyrir Ísland, því fyrr sem Íslendingar gangi þangað inn því betra fyrir Íslendinga. Þar að auki væri yfirlýsing um aðildarumsókn langskýrustu skilaboðin til umheimsins, um að íslenska stjórnkerfið vilji bót og betrun á því sem miður hefur farið.

Hins vegar mælti hann sterklega gegn einhliða upptöku evru eða annarra gjaldmiðla. Það sagði hann fljótlegustu leiðina til að útiloka landið algerlega frá ESB-aðild. Slík upptaka yrði í algjöru trássi við Evrópusambandið, samninga þess og hugmyndafræði, og myndi vekja mikla reiði. Þar að auki hefði íslenskt bankakerfi engan lánveitanda til þrautavara í slíku fyrirkomulagi.

Hins vegar lokaði hann ekki á myntbandalag við Noreg eða Danmörku. Með bandalagi við Noreg yrði hægt að aflétta höftum og ýmis vandamál myndu leysast. Enn betra væri að fá tengingu við dönsku krónuna, þar sem hún sé í rauninni evran, enda tengd við evruna. Með samstarfi við Dani og góðu samkomulagi við Evrópusambandið gæti það orðið mjög heppilegt „anddyri“ fyrir evruaðild.

Um íslensku krónuna sagði hann vel hægt að halda henni. Líklega myndi það samt þýða að gjaldeyrishöftum þyrfti að viðhalda í um það bil tíu ár hið minnsta, auk þess sem íslenskt hagkerfi yrði án tengingar við opna erlenda markaði og myndi að miklu leyti fara að snúast um landbúnað og fiskveiðar á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka