Hlutfall innflytjenda 8,6

Frá þjóðahátíð í Reykjavík fyrir nokkrum árum.
Frá þjóðahátíð í Reykjavík fyrir nokkrum árum. mbl.is/Eggert

Í byrjun ársins voru innflytjendur á Íslandi 25.265 talsins, eða 8,6% mannfjöldans. Hagstofan segir, að það sé mikil aukning frá árinu 1996 þegar innflytjendur voru einungis 2% landsmanna, eða 5356 talsins. Hlutfall innflytjenda hér á landi er nú álíka hátt og í Noregi og Danmörku.

Aftur á móti er hlutfall annarrar kynslóðar innflytjenda mun lægra hér á landi en í þessum löndum. Árið 1996 tilheyrðu einungis 0,1% landsmanna annarri kynslóð innflytjenda en 0,5 árið 2008.   

Hagstofan gefur nú í fyrsta skipti út tölur um innflytjendur og einstaklinga með erlendan bakgrunn en stofnunin hefur undanfarin misseri unnið að gerð gagnagrunns sem flokkar íbúa eftir uppruna.  

Innflytjendur hér á landi eru flestir á aldrinum 20-39 ára og er hlutfall barna í hópi innflytjenda hér talsvert lægra en í nágrannalöndunum. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru aftur á móti langflestir yngri en tíu ára. Segir Hagstofan að þetta sé öðru fremur til marks um stutta sögu innflytjenda hér á landi.

Fram undir lok 20. aldarinnar voru langflestir innflytjendur hér á landi frá Norðurlöndum. Innflytjendum frá löndum utan Norðurlanda fjölgaði ört eftir 1990. Árið 1996 voru 30% allra innflytjenda frá Norðurlöndum. Þetta hlutfall hafði lækkað í 7% árið 2008.

Á sama tíma fjölgaði innflytjendum frá öðrum löndum Evrópu úr 40% í 68%.  Árið 1996 voru langflestir innflytjendur hérlendis frá Danmörku (761). Litlar sem engar breytingar hafa orðið á fjölda þeirra frá þessum tíma og árið 2008 voru danskir innflytjendur hér á landi 752.

Innflytjendum frá löndum Austur-Evrópu hefur fjölgað mest hér á landi. Pólverjar nú langfjölmennasti hópur innflytjenda á Íslandi. Í upphafi árs 2008 voru þeir 9.082 samanborið við 347 árið 1996. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert