Framsóknarflokkurinn með 17% fylgi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Stuðningur við Framsóknarflokkinn hefur aukist mikið milli kannana MMR á fylgi stjórnmálaflokka og stuðningi við ríkisstjórnina. Stuðningur við Framsóknarflokkinn mælist nú rétt yfir 17%. Þetta er veruleg breyting frá síðustu könnun þegar rétt um 5% sögðust kjósa Framsóknarflokkinn væri gengið til kosninga í nú. Samanlagt segjast 41% styðja ríkisstjórnarflokkanna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn nýr formaður Framsóknarflokksins á landsfundi flokksins á sunnudag. Á fundinum var kjörinn nýr varaformaður, Birkir Jón Jónsson og ritari Eygló Harðardóttir. Öll eru þau ný í forystu flokksins. Könnunin, sem var net- og símakosning var gerð 20.-21. janúar.

Vinstri grænir með mestan stuðning

Í tilkynningu frá MMR kemur fram að stuðningur við Samfylkinguna minnkar mikið og fer úr 27,1% í 16,7%. Fylgi Sjálfstæðisflokksins heldur áfram að dala og mælist nú 24,3%. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna mælist nú í fyrsta skipti á kjörtímabilinu undir helmingi, eða 41%.

Vinstri grænir mælast enn stærsti flokkurinn, en 28,5% aðspurðra sögðust kjósa flokkinn væri gengið til kosninga í dag. Fylgi Frjálslyndra mælist nærri óbreytt í 3% og fylgi Íslandshreyfingar 2,2%. Tæp 8% sögðust vilja kjósa aðra stjórnmálaflokka en buðu fram síðast.

Umtalsverður munur mælist á fylgi við Framsóknarflokkinn eftir búsetu. Þannig nýtur flokkurinn stuðnings 13% höfuðborgarbúa en fylgið mælist öllu meira á landsbyggðinni, eða 24%. Nokkur munur er jafnframt á fylgi annarra flokka eftir búsetu svarenda. Minnstur munur á fylgi eftir búsetu mælist hjá Vinstri grænum, en flokkurinn mælist með 28-29% fylgi hvort heldur sem er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni.

Tæplega fjórðungur styður ríkisstjórnina

Stuðningur við ríkisstjórnina heldur áfram að dala og mælist nú 24,2% sem er 10% lægri en í byrjun desember 2008. Stuðningur við ríkisstjórnina meðal þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna minnkar um tæp 18% frá í desember og stendur nú í 34,7%.

Nánar um skoðanakönnun MMR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert