Helgi Hálfdanarson látinn

Helgi Hálfdanarson.
Helgi Hálfdanarson.

Helgi Hálfdanarson, bókmenntaþýðandi, kennari og lyfjafræðingur, andaðist á heimili sínu að kvöldi 20. janúar, 97 ára að aldri.

Helgi var fæddur 14. ágúst 1911 í Reykjavík, sonur hjónanna séra Hálfdanar Guðjónssonar og Herdísar Pétursdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1930. Helgi nam lyfjafræði í Reykjavík og Kaupmannahöfn og lauk cand. pharm.-prófi 1939. Hann stofnaði Húsavíkur Apótek sem hann rak í tvo áratugi, starfaði eftir það sem lyfjafræðingur og við kennslu í Reykjavík.

Meðfram daglegum störfum vann Helgi að þýðingum og var einn helsti bókmenntaþýðandi Íslendinga á 20. öld. Hann þýddi öll leikrit Williams Shakespeares, gríska harmleiki eftir Æskýlos, Sófókles og Evripídes. Einnig sígilda ljóðleiki eftir aðra höfunda, þar á meðal Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen. Þá endursagði Helgi efni nokkurra þekktra leikrita Shakespeares og gaf út á bók. Auk þess þýddi Helgi Kóraninn, sagnasöfn og fjölda ljóða frá flestum heimsálfum.

Helgi tók þátt í þjóðfélagsumræðunni og liggur eftir hann fjöldi greina og pistla, m.a. í Morgunblaðinu. Þar fjallaði hann um hugðarefni sín, málrækt, skáldskap og leikritun. Helgi setti einnig fram nýstárlegar kenningar til skilnings á Völuspá og öðrum fornkvæðum og smíðaði fjölda nýyrða.

Helgi var kvæntur Láru Sigríði Sigurðardóttur, fædd 16. janúar 1914 á Sauðárkróki, dáin 21. júlí 1970 í Reykjavík. Þau eignuðust þrjú börn. Morgunblaðið þakkar að leiðarlokum farsælt samstarf og vináttu í áratugi sem aldrei bar skugga á.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert